138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og ég er sammála honum um að þessi málflutningur hæstv. fjármálaráðherra er algerlega óskiljanlegur. Þetta er ósamrímanlegt, eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það er annars vegar verið að segja að allt gangi svo vel, miklu betur en við hefðum getað búist við og miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði getað búist við, en alltaf kemur svo nýtt „en“. Þá heyrist: En ef Icesave verður ekki samþykkt í þessum skýra og endanlega búningi eins og það er fer allt á hliðina. Ég fór yfir það, eins og þingmaðurinn veit, í ræðu minni að nú er lánshæfismatsfyrirtækjunum beitt fyrir okkur. Ég sagði það áðan og ég segi það enn: Mér er nákvæmlega sama um hvað lánshæfismatsfyrirtækjum finnst um þetta mál. Við látum samt ekki kúga okkur til að ljúka því með þessum hætti. Það er alveg klárt að það þarf að fá það fram hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við þegar hann talaði um grímulausar hótanir aðila innan Evrópusambandsins þar sem sagt var að við mundum hafa verra af ef við gengjum ekki frá Icesave-málinu. Hæstv. forsætisráðherra segist ekkert kannast við þetta, það hljóti að vísa til þess hvernig Bretar létu strax eftir hrun. Þess vegna hef ég lagt fram formlega fyrirspurn á þinginu, það er eina leiðin til að reyna að komast að á þessu þingi, ekki þó til hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að ef þetta snýst um þessa fyrstu daga er það hæstv. utanríkisráðherra, sem var einmitt í ríkisstjórn á þeim tíma, sem á að svara því hverjir það voru sem voru með grímulausar hótanir. Hverjir sögðu að við mundum hafa verra af, hvernig brást hæstv. utanríkisráðherra við og hvernig var utanríkisþjónustunni beitt? Ég hef lagt fram þessa fyrirspurn ofan í allar þær fjölmörgu sem ég hef áður lagt fram til að biðja um alls konar gögn og ég hef ekki enn þá fengið svar við. Ef það eitt og sér er ekki ástæða til að halda þessari umræðu gangandi (Forseti hringir.) þangað til þessum ágætu ráðherrum sýnist vera kominn rétti tíminn til að svara mér þá veit ég ekki meir.