138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála þingmanninum. Þeim mun skuldsettari sem maður er, því lægra lánshæfismat fær maður og við leysum það með því að taka frekari lán. Þessi röksemd gengur einfaldlega ekki upp, ekki frekar en sú röksemdafærsla að ef við klárum Icesave getum við fyrst farið að endurreisa bankakerfið. Ef við klárum Icesave fáum við lánin. Ef við klárum Icesave fáum við endurskoðun áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins o.s.frv. Það voru líka rökin sem við heyrðum þegar verið var að troða Evrópusambandsumsókninni í gegnum þingið og tekinn var dýrmætur tími frá endurreisninni og frá íslenskri stjórnsýslu sem á að vera að sinna endurreisninni einungis og engu öðru.

Það þarf að komast að því hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við þegar hann talaði um hótanirnar frá ESB en líka, eins og hv. þingmaður benti á, þau ummæli sem hæstv. fjármálaráðherra hafði varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann sagði að til væru skrifleg gögn og ég á eftir að leggja fram þá fyrirspurn en ég hef hana í vinnslu. Hann sagði að til væru skrifleg gögn sem staðfestu það hverjir væru að segja satt og hverjir ósatt. Hann á ekki að ýja að því, hann á að segja okkur það hreint út. Hann ýjaði líka að því að önnur endurskoðun áætlunarinnar væri háð því að Icesave-frumvarpið yrði samþykkt. Mér þykir það hreint með ólíkindum að við ættum að sætta okkur við það og ég tek ekki þátt í því. Við þurfum að bera örlítið meiri virðingu fyrir okkur en að halda slíkum málflutningi á lofti. Þar að auki virðist virðing hæstv. fjármálaráðherra gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fara þverrandi þegar hann talar um það sem óstaðfestar lausafregnir sem sendinefndin segir á Íslandi við stjórnarandstöðuþingmenn.