138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn svokallaða Icesave-samninga. Mikið hefur verið kvartað undan því af hálfu stjórnarliða að stjórnarandstaðan endurtaki margt hér sem hún hefur talað um í ræðum sínum en það er aldeilis ekki rétt, virðulegi forseti, vegna þess að margir nýir vinklar hafa komið á málið.

Þó að ég eigi eftir að fjalla efnislega um nokkra hluta málsins vil ég í þessari ræðu minni gera að umtalsefni álit 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar, en undir það rita tveir hv. stjórnarþingmenn, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson.

Í nefndarálitinu, sem ég vil fá að vitna í, með leyfi forseta, segir:

„Á fundum efnahags- og skattanefndar voru rædd ýmis álitamál, svo sem geta þjóðarbúsins og hins opinbera til að greiða af skuldum næstu 15 árin. Fram kemur í minnisblaði Seðlabanka Íslands sem rætt var á fundi nefndarinnar að mikil skuldabyrði hins opinbera hér á landi á næstu árum sé áhyggjuefni.“ — Ég undirstrika þetta, frú forseti, að mikil skuldsetning hér á landi sé mikið áhyggjuefni. — „Gert er ráð fyrir að hlutfall skulda hins opinbera af vergri landsframleiðslu (VLF) verði 125% á árinu 2009. Þetta hlutfall má ekki vera hærra en 60% vilji Íslendingar uppfylla Maastricht-skilyrðin og gerast aðilar að evrópska myntsamstarfinu. Aðeins eitt þróað hagkerfið er með hærra skuldahlutfall hins opinbera en það er Japan. Lítill hagvöxtur í Japan undanfarna tvo áratugi hefur að hluta verið rakinn til mikillar skuldsetningar hins opinbera. Það eru því líkur á því að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi muni draga úr hagvexti á næstu árum.“

Virðulegi forseti. Hér í nefndaráliti 2. minni hluta kemur fram að skuldir hins opinbera verði 125% á árinu 2009 þó að þær megi helst ekki fara yfir 60%. Ég ítreka að miklar líkur eru á því að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi dragi úr hagvexti á næstu árum. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Ef ekki verður viðunandi hagvöxtur hér þá getum við ekki staðið undir skuldabyrði þjóðarbúsins. Ef ekki verður hagvöxtur hér munum við að sjálfsögðu þurfa að ganga að innviðum og grunnstoðum velferðarkerfis okkar. Það er akkúrat þetta, virðulegi forseti, sem ég hef verulegar áhyggjur af og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem rita þetta minnihlutaálit. Þess vegna var svo mikilvægt að efnahagslegu fyrirvararnir giltu eins og þeir voru uppsettir, þ.e. við greiddum hlutfall af vexti á landsframleiðslu vegna þess að þannig tryggðum við að við gætum þó haldið grunnstoðum velferðarkerfisins sterkum, eins og þær eru núna, en sú hætta að þær veikist leynist í því að þjóðarbúið verði of skuldsett.

Nú vil ég fá að vitna aftur, með leyfi forseta, í áðurnefnt nefndarálit:

„Vaxi hagkerfið ekki hraðar en sem nemur vexti skuldanna er skuldsetning þjóðarbúsins ekki lengur sjálfbær. Ósjálfbærni skulda mun óhjákvæmilega leiða til greiðslufalls, en þá þurfa íslensk stjórnvöld að biðja kröfuhafa um hagstæðari endurfjármögnun á skuldum hins opinbera, þ.e. með lægri vöxtum og lengingu lánstímans. Í þessu felst mikil áhætta því að erfitt er geta sér til um viðbrögð kröfuhafa við slíkri beiðni.“

Virðulegi forseti. Það sem ég vil ítreka hér og hef haft áhyggjur af er að í Icesave-samningnum stendur að tillit sé tekið til Brussel-viðmiðanna. Af hálfu Íslendinga er viðurkennt að mið sé tekið af Brussel-viðmiðunum. Í þeim stendur að taka eigi tillit til fordæmislausrar stöðu Íslands. Það sem hv. þingmenn benda réttilega á og ég hef svo sem áður sagt í þessum ræðustól er að ef kæmi að því að þjóðarbúið lenti í greiðslufalli er maður efins um viðbrögð Breta og Hollendinga gagnvart því. Hvað þýðir það þegar búið er að rita inn í samningana að tillit sé tekið til Brussel-viðmiðanna? Ég tel að við þurfum að hafa verulegar áhyggjur af þessu og skoða betur, eins og gildir um svo margt annað í málinu.

Nú vil ég fá að vitna aftur, með leyfi forseta, í áðurnefnt nefndarálit:

„Mikil óvissa ríkir varðandi endurheimtur á eignasafni Landsbanka Íslands og því er vandkvæðum bundið að áætla hver raunveruleg skuldbinding vegna Icesave verður. Ef miðað er við 90% endurheimtur, þá verður núvirt hrein skuldbinding vegna Icesave um 14% af VLF á þessu ári en hlutfallið fer í 30% ef gert er ráð fyrir 50% endurheimtum.“

Virðulegi forseti, í nefndaráliti þessara hv. þingmanna kemur greinilega fram að ekki er vitað hver skuldbindingin er og menn hafa margoft rætt um að við vitum í raun og veru ekki hvaða skuldbindingu við erum að takast á hendur.

Í gær, virðulegi forseti, fullyrða svo hv. þingmenn að fyrir liggi hver skuldbindingin sé. Það er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum að menn skuli enn vera með svona málflutning þegar fram kemur í þessu minnihlutaáliti tveggja stjórnarliða, sem taka þar af leiðandi undir með stjórnarandstöðunni, að klárt sé að enginn viti hver heildarskuldbindingin sé. Einmitt þess vegna, virðulegi forseti, benda Sigurður Líndal, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal á það að hugsanlega sé verið að brjóta 40. gr. stjórnarskrárinnar þegar menn taka á sig nánast ótakmarkaða skuldbindingu ríkissjóðs, þar sem hvorki liggja fyrir upphæðir né gildistími. Hægt er að segja, virðulegi forseti, að þetta nefndarálit vísi í raun og veru því út í hafsauga sem sumir hv. þingmenn stjórnarliða hafa haldið fram.

Nú vil ég fá að vitna aftur í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um skuldaþol íslenska þjóðarbúsins er hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af VLF áætlað 310% fyrir árið 2009. Við útreikning á hlutfallinu gjaldfærir sjóðurinn heildarupphæð Icesave-lánasamninganna og nemur upphæðin um 49% af VLF eða um 721 milljarði kr. ...“

Virðulegi forseti. Þetta er 721 milljarður. Það er ekki eins og menn séu að tala hér um einhverja smáaura enda fjallar þetta náttúrlega um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar til framtíðar.

„... sem kemur til viðbótar annarri skuldsetningu opinberra aðila og einkaaðila. Þess má geta að AGS notar alþjóðlega staðla við mat á skuldbindingum og miðar alltaf við heildarskuldsetningu þjóðarbús við erlenda aðila sem hlutfall af VLF. Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%. Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Hér eru mjög athyglisverðar ábendingar, virðulegi forseti, um sinnaskipti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og látið að því liggja að í raun og veru sé skuldaþol íslenska ríkisins lagað að skuldunum, þ.e. það var talið óviðráðanlegt ef skuldirnar væru 240%, en nú hefur skuldaþolið verið hækkað upp í 310% vegna þess að skuldir íslenska ríkisins hafa hækkað upp í 310% af vergri landsframleiðslu. Í þessu nefndaráliti er bent á að hugsanlega beiti Bretar og Hollendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn pólitískum þrýstingi. Ég velti því bara fyrir mér, virðulegur forseti, hvort þetta sé ekki eitthvað sem við verðum að taka mjög alvarlega. Við verðum að taka mjög alvarlega ef hugsanlega er verið að pína okkur til að skrifa undir þessa Icesave-samninga með þrýstingi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem hann telur okkur trú um að við getum staðið undir skuldbindingunum. Sjóðurinn hefur verið margsaga í þessu máli, þ.e. hefur hækkað heildarskuldastöðu íslenska ríkisins, hann taldi áður að 240% væru hættumörkin en nú eru þau 310%. Það er eins og þeir lagi mörkin að skuldastöðu íslensks þjóðarbús, sem er alveg hreint með ólíkindum.

„Skuldahlutfall sem er langt yfir eðlilegum þolmörkum þýðir rýrari lífskjör því að draga þarf úr neyslu innan lands, ella muni ekki takast að tryggja nægilegan afgang á vöruskiptajöfnuði. Rýrnandi lífskjör almennings munu auka hættuna á landflótta.“

Rýrnandi lífskjör almennings munu auka hættuna á landflótta. Nú er ég ekki, virðulegi forseti, að gera mikið úr þessu, en það er réttilega bent á þetta hér og margir stjórnarandstöðuþingmenn hafa bent á að ef menn fara áfram með þetta vegur það mikið að innviðum velferðarkerfisins okkar og afleiðingarnar gætu orðið landflótti. Hins vegar hafa margir stjórnarliðar og sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra talað um að stjórnarandstaðan sé með einhverjar heimsendaspár. Það er eins og menn vilji ekki horfast í augu við raunveruleikann og því er alveg með ólíkindum að menn skuli ekki einu sinni virða það sem kemur fram hjá tveimur stjórnarþingmönnum og fara efnislega betur yfir þetta mál. Ég verð enn og einu sinni, virðulegi forseti, að harma það að þetta nefndarálit frá efnahags- og skattanefnd, eins og hin þrjú sem þaðan komu, var aldrei rætt efnislega í fjárlaganefnd, sem eru að mínu mati algjörlega forkastanleg vinnubrögð vegna þess að fjárlaganefnd kallaði eftir þessum álitum frá efnahags- og skattanefnd en (Forseti hringir.) ræddi þau síðan aldrei efnislega.