138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari ræðu minni ætla ég að fjalla um eitt tiltekið atriði í þessu máli sem hefur ekki fengið mikla athygli í umræðunni. Stjórnarskrárþátturinn hefur raunar verið töluvert til umræðu en hins vegar kannski ekki á þeim forsendum sem ég ætla að nálgast málið að þessu sinni. Það snýst um það sem ég tel vera framsal dómsvalds sem ég tel að felist í frumvarpinu og þeim viðaukasamningum sem því fylgja.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu í hádeginu í fyrradag, ræðunni sem hann hefur haldið við þessa umræðu — hann hefur reyndar verið duglegur að koma í andsvör en hins vegar ekki flutt nema þessa eina ræðu um málið — að varðandi áhyggjur manna af þessum þætti ættu menn bara að minnast EES-samningsins. Ég skildi hæstv. fjármálaráðherra þannig að hann teldi að það framsal dómsvalds eða a.m.k. það ákvæði sem varðar aðkomu EFTA-dómstólsins að dómsmálum hér á landi sem gert er ráð fyrir í frumvarpi og viðaukasamningum væri með öllu sambærilegt við ákvæði EES-samningsins.

Ég tel að í ákvæði frumvarpsins og í viðaukasamningum sé að þessu leyti gengið lengra í framsali dómsvalds en gert er í EES-samningnum og ætla að rökstyðja það í fáum orðum. Ég hef áður vikið að þessu í ræðum mínum, bæði við 1. umr. og 2. umr. frumvarpsins, en ekki haft tíma til að fara yfir þetta með þeim hætti sem ég ætla nú að gera.

Ég hef ekki gert viðamikla lögfræðilega úttekt á þessu en hef þó reynt að líta til þess hvernig þessi ákvæði eru og að hvaða leyti þau eru frábrugðin. Niðurstaða mín er að sú fullyrðing hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé með öllu sambærilegt við aðkomu EFTA-dómstólsins eins og gert er ráð fyrir í EES-samningnum standist ekki. Ég tel með öðrum orðum að hér sé gengið lengra varðandi framsal dómsvalds en gert er ráð fyrir í EES-samningnum og þess vegna þurfi að skoða sérstaklega hvort um heimilt framsal dómsvalds sé að ræða miðað við fullveldi landsins.

Ég ætla fyrst að rifja það upp, hæstv. forseti, að í 34. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem fylgir EES-samningnum er ákvæði sem felur í sér heimild fyrir dómstól EFTA-lands til að leita eftir ráðgefandi áliti hjá EFTA-dómstólnum. Með þessu er auðvitað ljóst að dómstólum EFTA-ríkjanna er aldrei skylt að leita slíks álits hjá EFTA-dómstólnum en þeim er heimilt að leita slíks álits.

Í öðru lagi er álit EFTA-dómstólsins í slíkum tilvikum, miðað við þessa 34. gr., aðeins ráðgefandi fyrir dómstól EFTA-ríkis ólíkt t.d. forúrskurðum Evrópudómstólsins, EB-dómstólsins. Þegar verið var að gera EES-samninginn stóð til að byggja upp stofnanakerfi sem væri sambærilegt við það sem fyrir hendi var innan Evrópusambandsins en þó með frávikum sem tengdust ólíkum stjórnskipunar- og réttarhefðum í EFTA-löndunum miðað við það sem gerist innan Evrópuréttarins.

Það hefur oftsinnis komið fram að við undirbúning viðræðnanna vegna EES-samningsins var rædd þörf á að kveða á um úrræði að þessu leyti sambærilegt við forúrskurðina. Menn veltu mikið fyrir sér spurningunni um hvort slík álit ættu að vera bindandi eða ráðgefandi. Niðurstaða við gerð EES-samningsins var sú að kveða á um að álit EFTA-dómstólsins yrði í þessum tilvikum aðeins ráðgefandi. Það var byggt á því að gagnstæð niðurstaða kynni að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskráa EFTA-ríkjanna. Þetta var skoðað vandlega og niðurstaðan var sem sagt að álitin yrðu ráðgefandi en ekki bindandi. Þetta kemur t.d. skýrt fram í álitsgerð lögfræðinganefndar utanríkisráðherra frá 1992 sem fór vandlega yfir þessi mál. Þar var lögð sérstök áhersla á að hvorki væri skylt að leita ráðgefandi álita né væru þau bindandi þótt dómstólar óskuðu eftir þeim. Af þessum sökum byggði þessi álitsgerð á því að þetta væri ekki stjórnskipulegt vandamál fyrir Ísland, það væri ekki um óheimilt framsal fullveldis að ræða þar sem álitin væru eingöngu ráðgefandi.

Hvernig fer þetta sjónarmið saman við ákvæðið í þeirri grein frumvarpsins og viðaukasamninga sem við erum að fjalla um? Í sem skemmstu máli er rétt að geta þess að þar er vissulega líka talað um ráðgefandi álit. Það vill hins vegar svo til að jafnframt felst í ákvæðinu að þetta ráðgefandi álit hafi í raun stöðu bindandi álits. Ef við lítum á viðaukasamninginn og frumvarpið er ljóst að til þess að íslenskur dómstóll geti dæmt mál af því tagi sem lögin kveða á um með þeim réttaráhrifum að íslenskar lagareglur gildi verður dómur íslenska dómstólsins að vera í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, ella gildir ekki hin íslenska regla með þeim réttaráhrifum sem um er að ræða.

Þá er spurningin: Er réttarregla íslensks dómstóls sem verður að fara eftir svona áliti ráðgefandi eða bindandi? Í mínum huga er svarið skýrt. Auðvitað er álitinu í þessu tilviki ætlað að vera bindandi. Samræmið milli niðurstöðu íslenska dómstólsins og hins ráðgefandi álits er algjör forsenda þess að réttarreglan gildi og þá er fyrst og fremst verið að vísa til hins svokallaða Ragnars H. Halls-ákvæðis. Bindingin er með öðrum orðum augljós í mínum huga þó að það sé farið í kringum það í frumvarpstextanum sjálfum og í greinargerð eins og köttur í kringum heitan graut.

Það verður hins vegar að geta þess að í greinargerðinni með frumvarpinu kemur skýrt fram berum orðum á a.m.k. þremur stöðum að niðurstaða íslensks dómstóls megi ekki vera í ósamræmi við þetta ráðgefandi álit. Á því byggi ég þá niðurstöðu mína að þetta svokallaða ráðgefandi álit verði í þessum tilvikum bindandi. Ég er með öðrum orðum þeirrar skoðunar að þetta ákvæði sé allt annars eðlis en það ákvæði fylgisamningsins við EES-samninginn sem hæstv. fjármálaráðherra vitnaði til í ræðu sinni hér í fyrradag. Ég er líka þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að með því að binda hendur íslenskra dómstóla með þessum hætti sé verið að framselja dómsvald og ganga gegn fullveldi okkar samkvæmt stjórnarskrá.

Þetta er mín lögfræðilega skoðun en um leið auðvitað stjórnmálaleg skoðun því að hér er líka stjórnmálalegt viðfangsefni á ferðinni. Hvort sem menn eru sammála þessari skoðun minni eða ekki er nauðsynlegt að a.m.k. komi fram við meðferð þessa frumvarps sterk rök og sjónarmið í málinu og ég tel að fjárlaganefnd verði að leggjast í skoðun á þessu og fá um þetta lögfræðilegar álitsgerðir til að undirbyggja niðurstöðu sína, hver sem hún verður. Það er að mínu mati algjörlega nauðsynlegt. Ég tel, miðað við þær lausafréttir sem við fengum af fundi fjárlaganefndar á þriðjudaginn, fullveldisdaginn, að sú skoðun sem hafi þá farið fram á vegum fjárlaganefndar sé ekki fullnægjandi og að það þurfi að skoða þessi mál betur, bæði þetta atriði og eins það atriði sem Sigurður Líndal prófessor hefur ítrekað vakið athygli á. Ég tel að það þurfi að skoða þessi stjórnarskráratriði miklu betur og þegar fjárlaganefnd kemst að endanlegri niðurstöðu í þessum málum þarf hún að byggja niðurstöðu sína á rökstuddum álitum enda er það sú leið sem Alþingi hefur alltaf farið þegar upp hafa komið stjórnskipuleg álitaefni af þessu tagi. Það er sú leið, hæstv. forseti, sem ég tel langskynsamlegast að fara og algjörlega nauðsynlegt (Forseti hringir.) þannig að Alþingi sinni hlutverki sínu.