138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eigum við ekki að eyða okkar dýrmæta gjaldeyri nú á tímum í að flytja inn jólatré. Ég var að benda á hið gallaða regluverk EES, að þjóð megi ekki hygla sínum vörutegundum án þess að það sé brot á samningi eða samþykktum Evrópusambandsins. Ég var að benda á það. Að sjálfsögðu erum við stolt af okkar Óslóarjólatré sem stendur hér úti á Austurvelli en það var að sjálfsögðu gjöf og ég vona sannarlega að það verði íslensk jólatré í flestum stofum nú fyrir jólin, þannig að því sé haldið til haga.

Varðandi þetta reglugerðafargan sem við erum sífellt að tala um og þessa ríkisábyrgð. Málið er óskaplega ósanngjarnt gagnvart Íslandi og okkur Íslendingum, eins og hv. þingmaður hefur farið inn á, þar sem það var viðurkennt út um alla Evrópu að ekki væri ríkisábyrgð á þessum innstæðutryggingarsjóðum eins og ég hef bent á. Franski seðlabankinn komst að því árið 2000 og það var staðfest með dómi frá Evrópudómstólnum árið 2002 gegn Þýskalandi að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum. Þetta var alveg klárt og eins og ég segi mjög útbreidd skoðun út um alla Evrópu þar til bankahrunið varð hér á Íslandi. Við urðum þannig í röðinni að bankarnir féllu nánast allir á sama tíma, það skalf allt úti í Evrópu, þar voru bankarnir að hrynja hver af öðrum og þá varð að grípa til þessara aðgerða og fara fram á að Íslendingar einir mundu bera ríkisábyrgð á skuldum einkaaðila. Það er forkastanlegt hvernig þessar þjóðir koma fram við okkur og ég segi það aftur, það er algjör viðurkenning á hugsun Evrópusambandsins að nú skuli þetta svokallaða samband vera búið að innleiða nýja reglugerð um að það sé skilyrði að ríkisábyrgð skuli vera á þessum sjóðum en gagnályktun á (Forseti hringir.) móti er að ríkisábyrgðin var ekki til staðar.