138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður vék að ábyrgð ráðherra og hvort þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig málið væri vaxið. Nú er það svo að í þessari umræðu hefur töluvert verið rætt um það hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gefið þinginu allar þær upplýsingar sem máli skipta í þessu sambandi og hefur ítrekað verið eftir því kallað af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni að minnisblöð og annað þess háttar sem virðast vera fyrir hendi í málinu en hafa ekki komið fram verði leidd í dagsljósið.

Ég ætla ekki að vitna í þessu sambandi í löngu máli í hv. þm. Ögmund Jónasson en í ritdómi í tímaritinu Þjóðmál, sem kom út nú í vikunni, hefur hann fjallað svolítið um þessi mál. Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Völdin og ofbeldið sem Íslendingar hafa verið beittir hefðu aldrei þolað dagsljósið. Þetta er mergurinn málsins sem íslensk stjórnvöld hafa ekki skilið.“

Svo kemur áhugavert efni sem ég ætla að sleppa (Forseti hringir.) en ég les áfram:

„Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur á Norðurlöndum hefði aldrei liðið ríkisstjórnum sínum að koma fram (Forseti hringir.) gagnvart Íslandi eins og þær hafa gert — sem handbendi lánardrottna okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — ef framkomu þeirra hefðu verið gerð skil í fjölmiðlum.“