138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður notaði ræðu sína til að fara mestmegnis yfir friðhelgisákvæðin og benti réttilega á að í samningnum sem kom fyrstur fyrir þingið í byrjun júnímánaðar var mjög afdráttarlaust og ámælisvert fallið frá friðhelgisákvæðunum. Reyndar kom athugasemd um það í lögfræðiáliti frá Seðlabanka Íslands.

Hv. þingmaður kom líka inn á það núna að hún teldi friðhelgisákvæðin ekki alveg trygg í þessum samningi og því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hætturnar felist í því að samningurinn fari eftir enskum lögum, þ.e. að ensk lög muni geta túlkað þetta, því að þau eru mun víðtækari í því hvernig ætti að falla frá friðhelgisákvæðunum. Er sá skilningur minn réttur að hv. þingmaður hafi bent á að það væri svo því af því að samningarnir falla undir ensk lög?

Í þessari vinnu hefur enginn sérfræðingur í enskum lögum verið fenginn til að fara sérstaklega yfir samninginn og benda okkur á hugsanlegar hættur í þeim ef þær eru til staðar. Eins og hv. þingmaður kom reyndar inn á í máli sínu eru þar að mati hv. þingmanns margar hættur. Hvað finnst hv. þingmanni um að við skulum ekki hafa fengið sérfræðing í enskum lögum og alþjóðalögum til að fara sérstaklega yfir þetta og benda okkur á þær hættur sem hugsanlega eru til staðar? Ef þetta er eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni er þetta mjög alvarlegt mál og ég tel mikilsvert að við skoðum þetta. Þetta er nokkuð sem við snúum ekki við. Eins og hv. þingmaður benti á hafa menn heimildir til að fullnusta kröfur sínar og það er ekkert smáræði. Við vitum hvað það þýðir, það þýðir væntanlega að það verður gengið (Forseti hringir.) á auðlindir landsins.