138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef alltaf jafngaman af því að hlusta á hv. þingmann enda er hún löglærð og byggir mikið á rökfræði. Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af lögfræði enda er hún ein elsta fræðigrein mannkynsins og byggir mikið á rökfræði sem ég hef líka gaman af. Hún er dálítið heillandi fræðigrein.

Ég er ekki lögfræðingur og mig langar að spyrja hv. þingmann: Í 2. mgr. 1. gr. laga frá því í sumar sem Alþingi samþykkti stendur að íslensk stjórnvöld eigi að kynna fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana í lögunum og þau eigi að tilkynna hvort þau fallist á þá. Nú hefur engin slík tilkynning komið og ég er margbúinn að spyrja að þessu, en mér hefur berið bent á að undirskrift Breta og Hollendinga undir samkomulagið sem býr til nýtt samkomulag um ríkisábyrgð kynni að mega túlka sem þeir væru búnir að hafna fyrirvörunum. Ég veit að hv. þingmaður er ekki dómari og síst af öllu Hæstiréttur, en mig langar til að spyrja: Hvernig lítur hann á þetta? Eru Bretar og Hollendingar búnir að hafna fyrirvörunum? Eru þá lögin ógild, eru þau fallin úr gildi eða eru þau enn þá í gildi? Gætu Bretar og Hollendingar ef þeir sæju sitt óvænna þegar þeir sjá hvað Alþingi er sterkt í andstöðunni og hvað það er erfitt að fá ríkisábyrgð á Íslandi, undirskriftasöfnun í gangi og guð má vita hvað, sent tilkynningu um að þeir féllust á fyrirvarana í 2. mgr. 1. gr. og tæki þá ríkisábyrgðin frá því í sumar gildi?