138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á þessum fjárlagafundi þar sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti fyrir fjárlaganefnd þennan „non-paper“, pappír sem var ekki til. Það er með ólíkindum að íslenska framkvæmdarvaldið skuli taka við svona pappír frá Bretum og Hollendingum, að vinna með einhver leyniskjöl. Þetta er akkúrat það sem þetta mál hefur gengið allt út á. Það var svo mikill trúnaður á þessum fundi að þingmenn fengu ekki einu sinni afrit af þessu bréfi í hendurnar, heldur var hent í okkur þýddri greinargerð úr þessu átta síðna skjali og hún gekk á milli. Það endaði þannig að við urðum svo undrandi að ég held að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað með því að segja að ég sagði við hæstv. fjármálaráðherra: Bíddu, þetta er ekkert annað en mötun. Við verðum að fá að sjá frumgerðina af þessu skjali. Það varð ekki.

Hins vegar, af því að þetta er svo stuttur tími, geta Bretar og Hollendingar alltaf sent bréf hingað og sagt: Við föllumst á fyrirvarana út af því að lögin eru í gildi. Þeim er í lófa lagið að senda það núna bara um leið og þeir fara heim úr vinnunni kl. 4 og segja: Við föllumst á þetta.