138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hafa stjórnarliðar komið upp, aðallega um fundarstjórn, í andsvörum eða einhverju slíku, til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að það sem vaki fyrir okkur stjórnarandstöðuþingmönnum sem tölum í þessu máli sé eingöngu málþóf og eitthvað slíkt. Málþóf hefur yfirleitt á sér neikvæða merkingu og mér persónulega, frú forseti, er alveg sama hvað menn kalla það þegar ég stend hér og ræði þetta stóra, mikla og alvarlega mál. Ég mun hins vegar halda áfram að ræða það þangað til málið er annaðhvort tekið út með þeim hætti sem verður gert, með atkvæðagreiðslu, eða að ljóst sé að tekið verði eitthvert tillit til þeirra athugasemda sem við höfum haft fram að færa.

Frú forseti. Margoft hefur komið fram að stjórnarandstaðan er reiðubúin að breyta dagskrá þannig að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir komi að öðrum þeim málum sem þarf að ræða og það hefur ekki verið þegið hingað til.

Virðulegi forseti. Af hverju ræðum við þetta mál svona mikið? Það er eðlilegt að menn spyrji sig að því og eru nokkrar ástæður og eflaust mismunandi ástæður fyrir því af hverju málið er rætt svo mikið og ítarlega. Ég ræði þetta fyrst og fremst vegna þess að það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu er að mínu viti algerlega óásættanlegt, það er beinlínis hættulegt. Það er verra en frumvarpið eða þau lög sem voru samþykkt í lok ágúst sl. Ég gat ekki samþykkt þau lög og get því ekki samþykkt þetta frumvarp en ég tel það hins vegar skyldu mína sem þingmaður að reyna að hafa áhrif á það að ákveðnir hlutar þessa frumvarps verði skoðaðir enn betur eða a.m.k. geri ég tilraun til að ná því fram.

Bent hefur verið á ýmis atriði sem nauðsynlegt er að verði skoðuð. Nægir þar að nefna álitamál varðandi stjórnarskrána, áhrif vaxta, fyrirvarana sem voru í fyrri lögum, greiðsluþol og ýmislegt annað. Sumu af þessu er örugglega hægt að svara á tiltölulega einfaldan hátt, annað þarfnast nokkurrar yfirlegu og því höfum við einnig boðið upp á það að fjárlaganefnd fundi um málið þó að málið sé enn hér til umræðu en það er heimild fyrir því að fara þá leið.

Hverju viljum við ná fram með því að ræða þetta mál? Það er það sem ég kom á framfæri í orðum mínum núna. Í fyrsta lagi að fjárlaganefnd taki málið og skoði þá þætti sem vafi ríkir um. Í öðru lagi að kveðið verði upp úr með það að einhver möguleiki sé á að breyta frumvarpinu. Og í þriðja lagi að stjórnin segi hvenær að hennar mati þurfi að klára 3. umr. en eins og við vitum er ein umræða eftir enn.

Mér þótti það mjög athyglisverð ræða og um leið fékk ég hálfgerðan kuldahroll þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir ræddi um að nú væri nauðsynlegt að breyta þingsköpum því að þau þóknuðust henni greinilega ekki eða því sem hún stendur fyrir. Ég hélt að við byggjum ekki í þannig landi að þingsköpum eða lögum væri breytt þegar stjórnarherrunum þóknaðist. Þau lönd eru til, það er alveg ljóst, en hingað til hefur það ekki átt við um Ísland svo ég viti til.

Ég hef í síðustu tveimur eða þremur ræðum fjallað um álitamál sem hafa komið upp varðandi stjórnarskrána og því miður hafa ekki komi fram nein nægilega skýr svör um það hvernig taka eigi á því máli. Það komu hér fram munnlegar ábendingar sem engan veginn duga. Það er ekki hægt, frú forseti, að hafa það hangandi yfir þingmönnum að mögulega séu þeir að brjóta stjórnarskrá. Ég get það ekki og ég efast ekki um að það eigi við um aðra þingmenn. Því er eðlilegt og sanngjörn krafa að það komi skrifleg álit varðandi þennan þátt.

Frú forseti. Önnur ástæða fyrir því að ég get ekki samþykkt þetta frumvarp eins og það er og mun ekki samþykkja það vegna þeirrar miklu óvissu sem í því felst, er m.a. sú að í frumvarpinu er enginn endir á greiðslum vegna Icesave. Ég get ekki, frú forseti, sem ábyrgur þingmaður og fjölskyldumaður skrifað undir óútfylltan tékka upp á fjárhæð sem enginn veit hve mikil er fyrir framtíðina og fyrir börnin mín. Ég get ekki samþykkt slíkt.

Ég er með grein fyrir framan mig eftir Ragnar Halldór Hall lögmann, og sá ágæti lögmaður sér ástæðu til að taka fram í undirskrift undir greininni að hann sé ekki félagi í neinum stjórnmálaflokki. Það er svolítið merkilegt að lögmaðurinn sjái ástæðu til að segja það, sem segir kannski allt um það hvernig fjallað hefur verið um umræðuna sem farið hefur fram um þetta mál. En Ragnar Hall gerði á sínum tíma athugasemdir við frumvarpið eða lögin sem átti að samþykkja og var þeim breytt m.a. vegna atbeina hans og ábendinga. Nú er búið að finna það út í því frumvarpi sem nú liggur fyrir, og m.a. þess vegna virðist lögmaðurinn hafa skrifað grein sem heitir „Er rétt að samþykkja þetta frumvarp?“ Mig langar, með leyfi forseta, að grípa aðeins niður í grein lögmannsins. Hér segir:

„Það er sjálfsagt til lítils að rökræða um efni þess,“ — þ.e. frumvarpsins — „þar sem málið er talið „þreytt“ og fullvíst talið að stjórnarþingmenn muni samþykkja frumvarpið, hvað sem tautar og raular. En það má reyna.“

Ég hef spurt mig, frú forseti, eftir að hafa lesið þessa grein hvað hefði gerst ef Íslendingar hefðu verið þreyttir í þorskastríðinu svo dæmi sé tekið. Hvað hefði gerst ef við hefðum gefist upp þá? Ég veit ekki hvort nokkur þorir að hugsa það til enda, frú forseti. En þá voru það einnig Bretar sem við áttum í stríði við og við eigum í stríði við Breta í þessu máli eða bresku ríkisstjórnina, ekki bresku þjóðina, því að verkamannaflokkurinn undir forustu kratans Gordons Browns hefur leikið íslenska þjóð afar grátt. Á okkur voru sett hryðjuverkalög sem hreinlega voru látin yfir okkur ganga án þess að spyrnt væri nægilega við fótum. Málið er þreytt í hugum margra og það er þreytt vegna þess að stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin heldur þeim ósannindum að þjóðinni að hér komist ekki nein önnur mál áfram vegna þessa máls. Það er ekki rétt vegna þess að hér er hægt að fara með önnur mál fram. En það er ekki eingöngu þetta sem ekki er sagt satt og rétt frá varðandi þetta mál, og ég hef áður minnst á það í ræðustól, heldur er allt í kringum málið svipað og sagan um strákinn og úlfinn — úlfur, úlfur.

Frú forseti. Það er alveg ljóst að við munum þurfa að skoða þetta mál í fjárlaganefnd, það þarf að skoða málið betur. Ég vona og reikna með að fljótlega geti það orðið, því að það er mikilvægt að hlustað verði á þau skilaboð sem hér hafa komið fram og þær efasemdir sem hafa verið uppi.

Í greininni sem ég minntist á áðan tekur lögmaðurinn Ragnar Halldór Hall undir aðra grein sem annar lögmaður skrifaði, Sigurður Líndal, um stjórnarskrána og hann segir, með leyfi forseta:

„Í stuttri og gagnorðri grein í Fréttablaðinu 19. þessa mánaðar benti Sigurður Líndal lagaprófessor á þá staðreynd að engin raunveruleg úttekt lægi fyrir um það hvort efni lagafrumvarpsins, eins og það liggur fyrir þinginu, samrýmdist stjórnarskrá lýðveldisins“

Frú forseti. Tími minn er útrunninn. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá og mun þá klára að fjalla um þessa grein lögmannsins Ragnars Halldórs Halls.