138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að því í upphafi ræðu sinnar að stjórnarliðar kvörtuðu mikið yfir málþófi sem hér væri í gangi, sem ég álít alls ekki rétt. Ástæðan fyrir því að málið er rætt svona mikið efnislega í þingsölum er einfaldlega sú að í fjárlaganefnd fór aldrei fram nein efnisleg umræða um málið áður en það var tekið út úr nefndinni. Málið var einfaldlega tekið út úr nefndinni í óþökk stjórnarandstöðunnar og ég benti sérstaklega á það í hv. fjárlaganefnd að ef menn færu þessa leið væru þeir meðvitaðir um að þeir væru að færa umræðurnar inn í þingsal, einmitt til þess að ræða efnislega þætti málsins eins og hv. þingmaður gerði í ræðu sinni áðan um þessi álitamál. Eðlileg vinnubrögð hefðu að sjálfsögðu verið að sú umræða hefði farið fram í fjárlaganefndinni sjálfri. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í þessu og hvort þetta sé í raun og veru ekki niðurstaðan, einmitt það sem hann var búinn að vara við að mundi gerast.

Síðan vil ég líka taka undir með hv. þingmanni og lýsa undrun minni á því að stjórnarliðar skuli þó ekki þiggja boð stjórnarandstöðunnar um að taka önnur brýn mál á dagskrá og færa þá hugsanlega þá vinnu sem nú fer fram í þingsölum, umræðu um efnislega þætti málsins, til nefndarinnar. Þetta er umræða sem ætti frekar að fara fram í fjárlaganefndinni og málið ætti að fara þangað aftur, eins og margoft er búið að bjóða upp á. Það mundi flýta fyrir því að hægt væri að taka önnur mál til umræðu, t.d. skattamál og annað, hvort heldur sem maður er með þeim eða á móti. Hin efnislega vinna sem klárlega þarf að vinna ætti auðvitað að vera unnin í nefndinni og mér finnst að það ætti að liðka til svo að málið geti farið aftur til nefndarinnar.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að ástæða þess að málið er rætt jafnefnislega og hér er gert nú sé sú að stjórnarliðar ákváðu að taka málið í óþökk við stjórnarandstöðuna út úr fjárlaganefnd.