138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki vísað á hvar þetta álit er mögulega að finna enda verð ég að viðurkenna að við erum búin að lesa í gegnum gríðarlegt magn af pappírum í þessu stóra máli og í gegnum heila möppu sem merkt er „leynileg“ til þess að reyna að átta okkur á því hvert innihaldið er í rauninni.

Ég man ekki eftir því að hafa lesið þar álit varðandi stjórnarskrána. Ég man ekki eftir því, en ég ætla ekki að fullyrða að svo sé ekki, ég man ekki eftir því. Það er hins vegar alveg ljóst að nú hafa a.m.k. fjórir af svokölluðum lögspekingum landsins, Sigurður Líndal, Ragnar H. Hall núna, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, lýst efasemdum um að það sem við erum að gera hér standist stjórnarskrá. Fyrir mér er það óásættanlegt að um það ríki efi. Ég vil að það sé alveg ljóst að það brjóti ekki stjórnarskrána og að því væri komið við til hliðar og að við þingmenn þyrftum ekki að bera það að hafa hugsanlega brotið hana. Eða þá, sem ég held að sé kannski líklegra, að þetta standist ekki stjórnarskrána.

Þetta hefur hins vegar ekki fengið efnislega umfjöllun í nefndinni, þ.e. það hafa ekki komið fram skrifleg álit. Þeir fjórir lögmenn sem komu fyrir nefndina, ég held að einn þeirra hafi verið tilbúinn til þess að skila skriflegu áliti og afhenti a.m.k. vísi að því á nefndarfundinum. Ég get vel trúað því að um þetta ríki einhvers konar — ekki deilur eða að lögmenn séu ekkert sammála um það hvort þetta brjóti eða brjóti ekki — en það er þá um að gera að kalla eftir báðum sjónarmiðum til þess að það verði efnisleg og rökrétt umræða um málið. Það er það sem ég held að við eigum að fara fram á og erum í rauninni eingöngu að fara fram á.