138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:34]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Rimman stendur um hvort það sé sanngjarnt eða ósanngjarnt að Íslendingar borgi þær kröfur sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir. Enginn veit þó enn þá hvað er nákvæmlega rétt í þessum efnum og hvað er rangt. Það er svo margt sem orkar tvímælis, margt sem liggur á milli skips og bryggju í skoðun málsins og engir fastir strengir í kengi í þeim efnum. Þess vegna er í fyrsta lagi algerlega ótímabært að taka ákvörðun um það mál sem hér er sett fram í frumvarpi, Icesave-samninginn sem ríkisstjórnin hefur illu heilli skrifað sjálf undir og leitar nú samþykkis Alþingis um, samning sem er klárlega versti og hættulegasti samningur Íslandssögunnar og er þá líka tekið tillit til Gamla sáttmála árið 1262 og einveldisafgreiðslunnar árið 1662.

Í dag standa Íslendingar á viðkvæmasta punkti í allri sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar, í 1100 ára sögu þjóðar okkar. Margt bendir til þess að ef Icesave-samningurinn verður samþykktur án þess að tekið sé tillit til þeirra fyrirvara sem Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári sé Ísland sett í skuldafangelsi sem sér ekki fyrir endann á. Þetta er kjarni málsins. Það er til að mynda ljóst að það þarf 80.000 af 150.000 tekjuskattskyldum Íslendingum til að greiða vextina af Icesave-samningunum að lágmarki til ársins 2016, síðan gæti það hugsanlega fari minnkandi en það gæti líka farið vaxandi. Áhættan, virðulegi forseti, er slík að Alþingi Íslendinga getur ekki, á ekki og má ekki staðfesta þann samning sem ríkisstjórnin hefur undirritað vegna þess að það er árás á íslenskt samfélag og sjálfstæði Íslands.

Ef við Íslendingar viljum sætta okkur við að vera eins konar efnahagsleg nýlenda gömlu nýlenduherraþjóðanna Breta og Hollendinga ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr því að játast þessum samningi en það viljum við ekki. Þorri þjóðarinnar vill það ekki og mun aldrei samþykkja neitt í þá veru. Ríkisstjórn Íslands í dag ræður ferð, hún ber ábyrgð á þessum samningi og menn hafa haft orð á því að í upphafi hrundaganna hafi verið samþykkt að gera samninga. (Gripið fram í: Já, já.) Það er allt annað að ganga frá samningum eða ganga að samningaborði, alveg sama hvaða viðmið eru og markmið. Það eru túlkunaratriði við gerð samninganna. Það ættu þeir að vita manna best sem hafa verið við stjórnvölinn í íslenskum fiskiskipum og spúlað dekkið eftir hvern róður. Þannig er það þó ekki í dag. Jafnvel þeir ágætu menn renna á rassinn í skaflinum (Gripið fram í: Standa í fæturna.) og eiga engan möguleika á því að standa upp með þetta ok á bakinu. Alveg sama þó að það sé gamall og góður siður að menn eigi að bera sig þeim mun betur sem verr gengur þá geta menn ekki tekið þá afstöðu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Bretar og Hollendingar hafa engin rök lagt fram, hvorki við Íslendinga né aðra, sem sýna fram á að það sé eðlilegt að Íslendingar greiði þessar kröfur. Þeir hafa neitað að víkja þessu deilumáli fyrir dómstóla. Hvers lags þjóðir eru það sem þykjast vera mark á takandi í Evrópu, best skipulagða hluta jarðarinnar í lögum og reglum, en þora ekki að setja deilumál sín fyrir dómstóla? Það eru ekki einu sinni afskiptir ættbálkar í Simbabve, Úganda eða á Fílabeinsströndinni sem leyfa sér svona vinnubrögð, ekki í Eþíópíu eða víða í heiminum. Þeir leyfa sér það ekki. Bretar og Hollendingar líta hins vegar niður á Íslendinga eins og hottintotta og ríkisstjórn Íslands kyngir þessu og lætur að vilja Breta og Hollendinga. Markmið þessara þjóða er það eitt að seilast eftir auðlindum Íslendinga, hvort sem er fiskimiða, orku eða reynslu í mannafla, landbúnaði og fleiru. Þetta lætur íslenska ríkisstjórnin eftir með því að leggja fram þennan galna samning. Hann er til þess eins gerður að búa til ákveðinn farveg fyrir fátækt á Íslandi. Þetta er mergurinn málsins, virðulegi forseti. Þess vegna verða menn að standa í ístaðinu og verjast af alefli.

Það segir líka sitt að hvorki Bretar né Hollendingar hafa vikið orði að rökunum fyrir því að kröfurnar eigi að vera greiddar. Það á líka sinn þátt í þessu að stjórnarsinnar taka ekki þátt í þessum umræðum eins og þeir ættu að gera vegna þess að þetta er ekki og á ekki að vera pólitískt mál. Þetta er mál sem varðar alla Íslendinga, sjálfstæðisstöðu Íslands og í slíku máli eiga menn að horfa yfir flokkapólitík. Þetta er nákvæmlega sama staða og þegar bátur strandar í brimgarði. Það eina sem er spáð í er að bjarga mönnum og koma bátnum út. Nei, þá slær ríkisstjórnin á spjallfundi og er með hugmyndir og vangaveltur en hugsar ekkert um afleiðingarnar.

Það hefur verið talað um málþóf í þessu sambandi, virðulegi forseti. Hér er ekki um neitt málþóf að ræða. Menn færa rök fyrir sínu máli og fylgja eftir sannfæringu sinni til varnar íslensku samfélagi og til þess þarf orðaskipti. Gallinn er sá, eins og ég vék að, að stjórnarsinnar eru ekki til viðræðu. Þeir eru líklega flestir búnir að láta berja sig til hlýðni, ganga blint um sauðmeinlausir á svip og virðast ekki gera sér grein fyrir því hvaða voði vofir yfir.

Forsætisráðherra hefur komið í mýflugumynd að þessum umræðum. Það er af sem áður var. Ég man þá tíð að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir talaði í 10 klukkustundir og 8 mínútur um Íbúðalánasjóð. Það var gott mál en forsætisráðherra blandar sér ekkert í smámál eins og Icesave sem varðar sjálfstæði Íslands vegna þess að forsætisráðherra stendur fyrir hópi samfylkingarmanna sem hafa flutt lögheimili sitt til Brussel og búa núna á Schuman-torgi. Ef einhver Íslendingur vill hafa samband við Samfylkinguna er rétt að leita uppi símanúmerið á Schuman-torgi í Brussel. Það kynni að nást samband en hvort það dugir að tala íslensku skal ég ekki segja, það er annað mál. Þetta er alvara málsins, virðulegi forseti, og við sem viljum verja sjálfstæði Íslands, íslenska menningu, íslenska tungu, íslenskt verksvit, heimilin og fyrirtækin í landinu verðum að fá færi til að fylgja eftir þessari sannfæringu og þeirri hugsjón að við viljum styrkja hag og möguleika Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar.

Svo heillum horfin er ríkisstjórnin að hún berst gegn baráttu manna í samfélaginu sem leggja ofurkapp á að byggja upp atvinnu við erfiðar aðstæður, byggja upp ný störf og ný sóknarfæri, því auðvitað höfum við lotið vegna heimshruns á fjármálamörkuðum og vanda sem var heimatilbúinn í þeim efnum og ekki af lítilli stærðargráðu. Ríkisstjórnin hefur hegðað sér á mjög neikvæðan hátt og verið til skammar, virðulegi forseti, til að mynda varðandi uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum sem hné mjög skjótt í kjölfar þess að Bandaríkjamenn fóru burt af Keflavíkurflugvelli án nokkurs fyrirvara eins og dónar. Þeir hefðu aldrei boðið stórþjóð upp á slík vinnubrögð en þeir buðu Íslendingum upp á þau. Hvernig ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í mörgum af málum sem er unnið að á Suðurnesjum er með ólíkindum. Álver í Helguvík, kísilver í Helguvík, gagnaver á Ásbrú, Keilir, mennta-, fræði- og vísindasamfélagið á Ásbrú, heilsutengd ferðaþjónusta á Ásbrú, jarðauðlindagarðar í Svartsengi og á Reykjanesi, stóraukin flugtengd starfsemi, menningartengd ferðaþjónusta á Suðurnesjum og fleira mætti nefna. Þeir draga lappirnar og ekki bara það, þeir setja þröskulda fyrir framgang þessara mála sem varða til að mynda um 1.400 atvinnulausa Suðurnesjamenn um þessar mundir.

Það er með ólíkindum að þeir flokkar sem hafa lagt kapp á að tengja sig öðru fremur við hið venjulega fólk í landinu, grasrótina, komi nú í bakið á þessu fólki með slíkum neikvæðum vinnubrögðum. Aftur kemur það fram svart á hvítu, reynslan sem menn um allan heim hafa af starfi margra hinna svokölluðu vinstri flokka sem lofa öllu fögru, lofa að gera allt fyrir alla en þegar kemur að efndunum, hvað gera þeir þá? Þeir taka allt af öllum og síðan á bara að sjá til hvort það verði einhver afgangur.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Forseti vill benda þingmanninum á að svo óheppilega vill til aftur í ræðu hv. þingmanns að klukkan fraus svo forseti hyggst gefa þingmanninum 40–50 sekúndur til að ljúka máli sínu.)

Það er ljómandi gott. Það er laglegt að tala klukkurnar í frost og vera svona bjartsýnismaður.

Virðulegi forseti. Það skiptir öllu máli í þessari stöðu að við berum okkur vel. Íslendingar eiga ekki samleið með Evrópusambandinu sem hefur knúið Íslendinga til samninga um Icesave. Við eigum að bera höfuðið hátt eins og okkur Íslendingum er eiginlegt og halda okkar striki hvernig sem á móti blæs.