138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:57]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessum þjóðum, Bretum og Hollendingum ásamt fleiri Evrópuþjóðum hefur aldrei verið treystandi til lengdar, aldrei, gagnvart litlum þjóðum. Það hefur verið hægt að gera skammtímasamninga við þá og umgangast þá eins og venjulegt fólk en þegar á reynir eru þeir drottnarar og vilja drottna yfir öðrum og varðar þá ekkert um eðlilega sanngirni eða eðlilega hluti manna á milli.

Ástæðan fyrir því að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af þessu er sú að skuldsetningin, skuldakrafan sem hér er deilt um er svo há að hún raskar öllu jafnvægi á Íslandi, til að mynda þó ekki væri nema bara þessi þáttur að rúmlega helmingur af öllum tekjuskattsskyldum mönnum þarf að standa í því um langt árabil að greiða vexti af Icesave-lánum til Breta og Hollendinga. Það segir söguna í hnotskurn. Þess vegna skiptir miklu máli, virðulegi forseti, að í vinnslu þessa máls sé farið grannt ofan í saumana á því í fyrsta lagi hvort þessi samningur stenst íslenska stjórnarskrá, hvort þessi samningur sé allt of íþyngjandi fyrir Ísland, að greiðslubyrðin sé of mikil, greiðsluskyldan sé of mikil og sérstaklega það, virðulegi forseti, að það liggur engan veginn ljóst fyrir hver upphæðin er. Upphæðin er óútfylltur reikningur að stórum hluta og það á Alþingi Íslendinga aldrei nokkurn tíma að skrifa undir, aldrei.