138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hólið. Það er algjörlega ljóst að til þess að standa undir þessum greiðslum þurfa þær að koma einhvers staðar að. Og ég er algjörlega sammála því mati Seðlabanka að við getum borgað þetta, það er ekkert mál, en það verður ekki gert nema taka frá einhverju öðru, frá velferðarkerfinu, frá heilsugæslukerfinu, frá menntakerfinu og frá rekstri hins opinbera. Það er svo einfalt að það er takmarkað magn af peningum sem við getum gengið að. Eitt tekur frá öðru. Og það eru engin geimvísindi fólgin í því ef maður á 100 kr. og þarf að borga 50 kr. í lán, verður maður af einhverri neyslu. Það er bara svo einfalt.

Þær forsendur sem notaðar hafa verið til þess að komast að því að við munum hafa nægan gjaldeyri til þess að standa undir þessu, eru þær að raungengið hér verði það lágt um mjög langt árabil, yfir 10 ára árabil, að lífskjör á Íslandi verða með því versta sem þekkist í Evrópu. Við þurfum jafnvel að fara út fyrir Evrópu til þess. Það leiðir bara til eins, að ungt, vel menntað fólk sem á auðvelt með að hreyfa sig, mun fara þangað sem lífskjörin og tækifærin eru betri. Þeir sem eftir sitja þurfa að bera enn þá þyngri bagga. Þetta eru engin geimvísindi. Þetta er bara einföld „lógík“.