138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er eins og mig grunaði og hv. þingmanni tókst að útskýra þetta ágætlega. Það hefur stundum örlað á því að stjórnarliðum hafi þótt óviðeigandi þegar menn setja þetta stóra mál í samhengi við daglegt líf fólks. Eins furðulegt og það er nú þykir það nánast ósmekklegt á stjórnarheimilinu þegar bent er á að þegar menn taka á sig slíkar skuldbindingar muni það t.d. hafa áhrif á þá heilbrigðisþjónustu sem við getum veitt fólki, þótt það sé augljóslega staðreynd í málinu. Og eins og hv. þingmaður benti á, ef samfélagið byrjar að þróast með þessum hætti og fleiri og fleiri flytjast af landi brott, eru færri og færri eftir til þess að standa undir skuldunum og vandinn magnast. Maður getur horft á keðjuverkun sem getur varað áratugum saman og jafnvel verið til frambúðar. Það hlýtur að vera gríðarlegt áhyggjuefni og veitir fulla ástæðu til þess að við höldum áfram að reyna að útskýra þetta fyrir stjórninni.

Það sem ég velti fyrir mér er hvort setja megi óáþreifanlega hluti eins og heilsu fólks og slíkt í hagfræðilegt samhengi. Þar vil ég vitna sérstaklega í eitt dæmi sem eru útreikningar sem mörg Evrópuríki gera þegar þau meta mannslíf í evrum talið. Þau setja sér eitthvert viðmið í mati á mannslífi og nota svo þetta viðmið til að mynda þegar verið er að reikna hve miklu á að verja í ákveðin verkefni, samgöngubætur. Þá segja menn sem svo: Ja, ef við breikkum þessa brú eru svo og svo miklar líkur á því að við björgum einu eða tveimur mannslífum. Svo er það borið saman við þá tölu sem sett er á virði mannslífa og þannig fengin niðurstaða.

Í þessu máli snýst þetta um líf og limi fólks, heilsu, öryggi og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Gæti hv. þingmaður sett þetta betur í slíkt samhengi fyrir mig?