138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að fari ég yfir það í upphafi máls míns af hverju við erum að ræða þetta mikilvæga mál.

Ríkisstjórnin hefur fullyrt að stjórnarandstaðan sé ekki reiðubúin að semja. Við skulum líta aðeins aftur í tíma og skoða aðdragandann að þessu máli eingöngu sem við erum að fjalla um á hinu háa Alþingi. Samninganefndin fór og átti að kynna fyrir Bretum og Hollendingum þá fyrirvara sem Alþingi setti í lögum nr. 96/2009, sem samþykkt voru í lok ágústmánaðar. Það stóð skýrt í lögunum að ef Bretar og Hollendingar sættu sig ekki við þá fyrirvara sem Alþingi setti, mundi ríkisábyrgðin falla úr gildi. Þetta stóð þar skýrum stöfum. Alþingi veitti ekki ríkisstjórninni heimild eða umboð til þess að semja á ný við Breta og Hollendinga. Þar liggur hundurinn grafinn. Ríkisstjórnin gat ekki leyft sér að semja án heimildar Alþingis.

Fyrir um ári síðan veitti Alþingi þáverandi ríkisstjórn heimild til að fara og semja með skilyrðum. Skilyrðin voru þau að tekið yrði tillit til hinnar dæmalausu aðstöðu sem Íslendingar voru í og að tekið yrði tillit til þeirra í samningaviðræðunum. Allir sem lásu samninginn gerðu sér ljóst að það var hvergi tekið tillit til hinna fordæmalausu aðstæðna sem Íslendingar voru í. Þvert á móti kom í ljós að Bretar og Hollendingar ætluðu sér og hafa ætlað sér allan tímann að notfæra sér aðstöðuna. Samningarnir sem komu, loksins þegar búið var að aflétta af þeim leyndina, sýndu svart á hvítu að um væri að ræða einhverja óhagstæðustu samninga sem vestræn þjóð hefur gert. Og ekki leið á löngu þangað til menn bendluðu Icesave-samningana við Versala-samningana svokölluðu þar sem Þjóðverjar voru látnir gangast undir afarkosti við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og leiddu beinlínis til seinni heimsstyrjaldarinnar. Samlíkingin leiddi það nefnilega í ljós að Icesave-samningarnir voru hugsanlega verri.

En við stöndum hér og þráttum um það hvort þær breytingar sem ... (PHB: Við þráttum ekki neitt, við ræðum þær.) reynum að þrátta um við stjórnarliða eða a.m.k. rökræða, það gengur erfiðlega að fá þá til að ræða þetta mál efnislega, hvort fyrirvararnir sem settir voru í lok ágúst séu betri eða verri. Allir sem lesa fyrirvarana komast mjög fljótt að því að þeir eru að sjálfsögðu verri vegna þess að ef þeir væru betri, væri það svo nöturlegt sem verða má að Bretar og Hollendingar voru reiðubúnir að ganga lengra í að gæta hagsmuna Íslendinga en ríkisstjórn Íslands hefur gert í þessu máli. Auðvitað hafa Bretar og Hollendingar ekki gert neitt annað en að gæta sinna hagsmuna.

Þegar málið er þannig vaxið að ríkisstjórnin hafði ekki umboð til að semja og ætlar sér ekki að semja um málið, verður að ræða það á Alþingi. Það verður að fara gaumgæfilega yfir það og við höfum kallað eftir afstöðu stjórnarþingmanna til málsins allan tímann. Það virðist erfitt fyrir þá að koma hér upp og standa fyrir máli sínu, kannski vegna þess að þeir hafa slæma samvisku í málinu. Lögmennirnir sem komu á fund nefndarinnar um daginn, þrátt fyrir að menn greini á um það sem þeir sögðu um stjórnarskrármálið, voru sammála um eitt: Það má aldrei aftur í sögu Íslands viðhafa sömu málsmeðferð og verið hefur í þessu máli, aldrei nokkurn tímann. Hún er það slæm og hún er það vond að hún á að vera víti til varnaðar.

Og svo spyrja menn: Ætlið þið að tala út í hið óendanlega? Við erum að tala um eitthvert mesta hagsmunamál Íslands fyrr og síðar. Ég tel að það hafi verið mikilvægt að ræða málefni Íbúðalánasjóðs þegar Húsnæðismálastofnun var breytt í Íbúðalánasjóð. Hæstv. forsætisráðherra talaði í því máli í 10 klukkustundir, (Gripið fram í: Í einni ræðu.) í einni ræðu, og átta mínútur. Ég er ekki að nálgast þá tímalengd og á eftir að fara ítarlega yfir það álit sem ég skrifaði í þessu máli og var þó gefinn þröngur tími til að skrifa. Ég hef skrifað hátt í 50 blaðsíðna álit, vegna þess að ég vil að komandi kynslóðir geti kynnt sér með hvaða hætti staðið var að samkomulagi eða samningum um Icesave. Ég vil að komandi kynslóðir geti kynnt sér af hverju þær þurfi að eyða öllum sínum skattpeningum í að greiða vexti og höfuðstól af Icesave-skuldbindingunni.

Komandi kynslóðir munu spyrja spurninga. Þær munu spyrja t.d. spurningarinnar hvort frumvarpið hafi samrýmst ákvæðum stjórnarskrár Íslands. Þær munu spyrja þeirra spurninga: Hversu miklar fjárhagsskuldbindingar fólu samningarnir í sér? Gerðu þingmenn sér grein fyrir hversu miklar fjárhagsskuldbindingar þeir væru að samþykkja á hinu háa Alþingi? (Gripið fram í: Nei.) Þær munu líka spyrja: Gerðu þingmenn Samfylkingarinnar t.d. sér grein fyrir hvaða efnahagslegu hættur mundu stafa af því að hafa skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum? Þær munu spyrja spurninga eins og þeirra: Gerðu þingmenn sér grein fyrir hvaða áhrif breytingarnar hefðu sem gerðar voru á efnahagslegu fyrirvörunum frá því í sumar? Gerðu þingmenn sér grein fyrir hvaða áhrif breyttar reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbankans, hið svokallaða Ragnars H. Halls-ákvæði, hefðu á framtíðina? Hefði ekki verið á þeim tíma betra að gera sér betur grein fyrri mögulegri gengisáhættu í málinu?

Þær munu einnig spyrja spurninga eins og: Var ekki þörf á nákvæmari samanburði á áhrifum þess að hafa vexti fasta en ekki breytilega? Þau munu segja: Þetta eru hlutir sem stjórnarandstaðan ræddi. Menn höfðu skoðanir á því. Vörpuðu á milli sín spurningum sem stjórnarliðar, meiri hlutinn, treysti sér ekki til að svara, treysti sér ekki til að hafa skoðun á. Og þær munu spyrja: Af hverju var ekki upplýst hvaða forsendur bjuggu á bak við Brussel-viðmiðin? Af hverju er þetta misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á samningunum? Af hverju lá ekki mat sérfræðinga í enskum lögum á texta samningsins fyrir? Af hverju skorti lögfræðilegt mat á afleiðingum þess að ensk lög gildi um samninginn en ekki íslensk, verði látið á ákvæði þeirra reyna fyrir dómstólum?

Þetta eru spurningar sem komandi kynslóðir munu spyrja og þær munu spyrja sig af hverju þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna treystu sér ekki til þess að koma hér upp í ræðustól og svara þessum spurningum.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við fáum svör við þessum spurningum vegna þess að það er enn þá óljóst hvaða áhrif það hefur á skuldbindingar íslenska ríkisins verði ráðist í endurskoðun (Forseti hringir.) á innlánstryggingarkerfi ESB. Það er enn þá óljóst. Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Við þurfum að ræða þetta mál í hörgul á Alþingi.