138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann sem situr í fjárlaganefnd þannig að þau gögn eða upplýsingar sem hæstv. fjármálaráðherra vísaði í að hefðu verið unnin fyrir ríkisstjórnina, að mati á því hvort undirritun samninganna sjálfra stæðist stjórnarskrá, hefðu ekki komið inn í fjárlaganefnd. Ég skil hv. þingmann þannig. Þá er ekkert annað að gera en að leggja fram enn eina fyrirspurnina til hæstv. fjármálaráðherra, skriflega þá, um hvar þessi vinna hafi átt sér stað, hver vann hana af hendi og hvar gögnin varðandi það eru til. Ég held að enn og aftur sé komið fram í þessu máli að til eru gögn sem ekki eru uppi á borðinu.

Miðað við umræðuna í þessum sal þar sem við höfum nú verið skömmuð fyrir að tala of mikið og of lengi og helst ætti að breyta þingsköpum svo við fengjumst til þess að hætta að tala, það var hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem hafði þá skoðun, skil ég ekki hvers vegna þetta hefur ekki komið fram fyrr í málinu. Það hefði getað leiðrétt ýmislegt sem hefur verið sagt (Forseti hringir.) hér í þessum stól.