138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom inn á Versala-samningana og afleiðingar þeirra fyrir fyrri og seinni heimsstyrjöld. Ég er reyndar ekki viss um að þetta Icesave-mál valdi heimsstyrjöld. Ég gat um það 20. nóvember að Íslendingar hefðu átt að borga tvö kíló af gulli á meðan Þjóðverjar áttu að borga 0,7 kíló af gulli, þ.e. við eigum að borga þrisvar sinnum meira gull en Þjóðverjar. Þeir sömdu um þetta í friðarsamningum.

Spurningin sem ég vil spyrja hv. þingmann er sú hvort hryðjuverkalögin og framkoma Breta og Hollendinga með í fyrsta lagi gjaldeyrisþvingunum — það var mjög erfitt að fá gjaldeyri til landsins, gjaldeyrisviðskipti öll eða gjaldeyrismillifærslur hurfu og urðu mjög erfiðar — og síðan aðkoma þeirra í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið o.s.frv., hvort þetta sé í rauninni ekki viðskiptastríð. Þegar menn tapa stríði eins og Íslendingar greinilega gerðu, eiga þeir þá ekki rétt á að fara í friðarsamninga? Væri ekki skynsamlegt núna að fara fram á friðarsamninga? Við mundum greiða eins og Þjóðverjar greiddu, þeir byrjuðu reyndar heimsstyrjöld sem Íslendingar hafa ekki gert en mér finnst að Íslendingar eigi alla vega ekki að sæta verri kostum en Þjóðverjar eftir fyrri heimsstyrjöld.