138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að þetta sé nokkuð vel til fundið. Ég held að við ættum nú þegar að fara fram á að gerðir verði friðarsamningar milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar. Þetta er stríð í þeim skilningi, svo sannarlega.

Samanburður minn áðan þegar ég vísaði í Versalasamningana á fyllilega rétt á sér. Það sem gerðist í þeim samningum var einfaldlega að Þjóðverjar voru neyddir til þess að gera hluti og kúgaðir eftir fyrri heimsstyrjöldina sem leiddi beinlínis til seinni heimsstyrjaldarinnar. Hvað gerðist síðan eftir seinni heimsstyrjöldina? Menn lærðu af þeim mistökum og gerðu mun hagstæðari og sanngjarnari samninga við Þjóðverja og það hefur líka ríkt friður eftir seinni heimsstyrjöldina vegna þess að Þjóðverjar voru ekki beygðir ofan í duftið. Ég hef kallað eftir því allan þennan tíma að við Íslendingar þurfum að ná þeirri stöðu, og það er enn þá hægt, að við getum samið við Breta og Hollendinga þannig að jafnræðis gæti í samningaviðræðum, að við stöndum jafnfætis þeim þjóðum og að aðrar þjóðir verði leiddar í sannleika um hvað átti sér stað. Það mun aldrei ríkja friður á Íslandi um að greiða þessa Icesave-samninga ef þeim er troðið ofan í kokið á almenningi, ef almenningur er neyddur til þess að greiða stóran hluta af tekjuskatti sínum í framtíðinni bara í vexti til Breta og Hollendinga. Það var ágætt að þingmaðurinn benti á að Bretar stórgræða nú þegar á þeim vöxtum sem þeir neyða Íslendinga til þess að borga af þessu láni. (Forseti hringir.)