138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir að við ættum að biðja um friðarsamninga. Það undirstrikar líka að þessar þjóðir réðust á og inn í Ísland.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um annað. Í hv. efnahags- og skattanefnd var þetta mál rekið í miklu hasti í gegnum nefndina og þar varð engin umræða. Það kom fram hjá stjórnarliðum í þeirri nefnd, ég ætla að vona að ég fari rétt með, að umræðan ætti að færast yfir í sal Alþingis. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Voru svipuð viðhorf í hv. fjárlaganefnd þar sem málið var líka rifið út án þess að menn læsu einu sinni nefndarálitin? Þvílík vanvirðing á starfi efnahags- og skattanefndar. Nefndarálitin voru ekki lesin. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort sömu rök hafi verið þar og hvernig það fari eiginlega saman við að nefndarmenn í þessum nefndum taka ekki einu sinni þátt í umræðunni þótt þeir hafi ætlað að vísa þeim til Alþingis (Forseti hringir.) til þess að ræða málin.