138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson fjallaði töluvert um Brussel-viðmiðin svokölluðu í ræðu sinni. Eins og kannski flestir vita ganga þau út á það að gera eigi okkur Íslendingum kleift að byggja okkur upp úr því efnahagslega fárviðri sem við lentum í. Við bentum á það þegar við vorum að vinna við fyrirvarana fyrr í sumar, á sumarþinginu, að með því t.d. að setja þennan efnahagslega fyrirvara, sem nú er búið að taka úr sambandi, værum við einmitt að vísa til Brussel-viðmiðanna. Við sögðum: Þessi fyrirvari, um að við greiðum ákveðna prósentu af hagvexti til þess að standa undir skuldbindingunum, er einmitt með vísun í svokölluð Brussel-viðmið.

Þegar fjárlaganefnd var að klára vinnu sína óskuðum við í stjórnarandstöðunni eftir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kæmi á fund nefndarinnar. Hún hefur sett fram opinbera gagnrýni á vinnuna sem farið hefur fram. Hún orðaði það á þann veg í viðtali að við hefðum gengið eins og sakamenn til samninga og lét að því liggja fyrr í sumar að Brussel-viðmiðin væru ekki inni í samningunum. Hún gagnrýndi þá hæstv. ríkisstjórn fyrir það að hún hefði ekki fylgt þeirri skyldu sinni eftir að vinna málið í nánu sambandi við Evrópusambandið sem átti að tryggja að Brussel-viðmiðin væru inni.

Virðulegi forseti. Nú er búið að skrifa inn í samningana að tekið sé tillit til Brussel-viðmiðanna. Af því ég veit að hv. þingmaður er löglærður spyr ég hann: Ef við lendum nú í einhverjum vandamálum og getum ekki staðið undir þessum samningum hverja telur hv. þingmaður túlkun Breta og Hollendinga þá vera (Forseti hringir.) þegar við erum búin að undirrita að Brussel-viðmiðin séu þegar til staðar í samningunum?