138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður benti á, með stökustu ólíkindum og ósvífnin virðist vera takmarkalaus. Þessi Samfylkingaráróðurspóstur sem hv. þingmaður las upp úr er, eins og þingmaðurinn hv. benti réttilega á, nánast allur rangur. Þarna eru fullyrðingar sem eru ekki aðeins spurning um að teygja sannleikann eða toga hann til heldur beinlínis ósannindi. Einnig eru þar fráleitar fullyrðingar eins og að þetta hafi eitthvað með neyðarlögin að gera, að það breyti einhverju um gildi neyðarlaganna hvort fallist verði á þessa kröfu Breta og Hollendinga eða ekki. Því er öfugt farið ef eitthvað er vegna þess að Bretar og Hollendingar hafa núna hagsmuni af því að neyðarlögin haldi ef ekki er gengið svona frá málum. Hins vegar er fjöldinn allur af öðrum kröfuhöfum sem þegar eru búnir að og eru að láta reyna á neyðarlögin. Lok þessa Icesave-máls hafa því ekkert með það að gera. Eins og staðan er núna tryggja neyðarlögin betur hagsmuni Breta og Hollendinga.

Í þessum pósti birtist, eins og hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir, staða þessa máls og umræða um það. Hér hefur ekki farið fram heiðarleg umræða þar sem staðreyndir málsins eru skoðaðar, þetta snýst allt um að umturna hlutunum og afvegaleiða eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur raunar gengist við sjálfur að hafa gert varðandi útreikninga á skuldaþoli þjóðarinnar. Þess vegna er það þeim mun grátlegra að þingmenn stjórnarliðsins skuli ekki treysta sér til að koma í ræðustól og standa fyrir máli sínu. Nú spyr ég hv. þingmann: Er það ekki einfaldlega vegna þess að þeir vita að þá yrðu þeir staðnir að ósannindum? (Forseti hringir.)