138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðu hans. Hann fór aðeins í samninginn sjálfan í upphafi ræðu sinnar. Það er kannski ágætt að minna okkur á það öðru hvoru að samningurinn sem birtist okkur seint um síðir, og að lokum hér í byrjun júní, er í gildi og þeir fyrirvarar sem við settum við þann samning, þau lög eru í gildi síðan í lok ágúst. Þannig að staða okkar er ágæt eins og hún er. En við höfum talað um það hér í mörgum ræðum, stjórnarandstæðingar fyrst og fremst, að síðan hafi þessi niðurstaða versnað til mikilla muna við þann viðauka sem gerður var á haustdögum.

Stjórnarþingmenn sumir hverjir, og þeir fáu sem hafa komið hingað upp, hafa látið á sér skilja að þetta sé komið nægilega langt og ekki þurfi að ræða þetta neitt frekar. Þeir viðurkenna þó að vandinn geti verið talsverður og hafa jafnvel látið á sér skilja, þar á meðal hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, og eins hæstv. utanríkisráðherra, að nú sé rétti tíminn til að samþykkja þetta til að koma þessu frá og svo getum við tekið málið upp aftur síðar og samið upp á nýtt. Ég hef haft miklar efasemdir um þetta og á sumarþinginu fannst mér eitt af því sem var alvarlegast í samningnum sjálfum vanefndaákvæði en þar voru að mínu mati nánast allar varnir úr höndum okkar slegnar, að við gætum sett upp með seinni tíma lögum frá Alþingi einhverjar þær varnir sem gætu varið okkur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það færa leið, (Forseti hringir.) þá leið sem stjórnarliðar leggja til, að samþykkja þetta núna (Forseti hringir.) í trausti þess að við getum síðar samið með betri hætti við Breta og Hollendinga.