138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að menn megi ekki samþykkja þennan samning með það í huga að seinna meir verði hægt að breyta samkomulaginu. Hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn sem ætla að samþykkja frumvarpið verða að gera sér grein fyrir því að ekki er sjálfgefið að hægt sé að breyta neinu hér eftir. Það er mikilvægt að menn séu ekki að rugla því saman að hægt sé að gera það með þeim hætti.

Það sem hefur líka oft komið fram í umræðunni, og ég hef tekið upp í ræðum mínum áður, er einmitt þessi hætta. Það er það sem Indefence-hópurinn benti á, þ.e. nú er búið að skrifa inn í samningana, og við erum búin að gangast við því, að tekið sé tillit til Brussel-viðmiðanna í samningnum. Ef svo færi að við gætum ekki staðið við samningana, sem margir hverjir hafa mjög miklar áhyggjur af, af því við þurfum alltaf að greiða vextina innan þessara efnahagslegu fyrirvara, alveg sama hvernig mál þróast verðum við alltaf að greiða þá og við vitum ekki hver skuldbindingin er. Þegar Bretar og Hollendingar hafa það staðfest af hálfu íslenskra stjórnvalda að tekið sé tillit til þeirra viðmiða, þessara fordæmalausu aðstæðna á Íslandi sem eiga að gera okkur kleift að endurreisa efnahagslíf okkar, held ég, og það hefur reyndar margoft komið hér fram, að það hafi ekkert lagalegt gildi.

Ef við lendum í þessum sporum, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, munu Bretar og Hollendingar vitanlega benda okkur á að tekið sé tillit til þeirra aðstæðna sem nú eru fyrir hendi á Íslandi. Það þýði ekkert fyrir Íslendinga að vera að tala um að breyta þessu eitthvað eftir á. Ég tel það mjög hæpið ef menn ætla að fara að samþykkja þessi lög með þá von í huga að þeir geti breytt þeim einhvern tímann aftur. Það er búið að skrifa inn í samningana að tekið sé tillit til Brussel-viðmiðanna þó að ég sé reyndar (Forseti hringir.) algjörlega ósammála því.