138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég get upplýst að ég hef sömu skoðun og þingmaðurinn. Ég tel mjög varasamt að við förum út á þann hála ís að einhverra hluta vegna, vegna einhverrar óskilgreindrar pressu, sem við höfum svo sem upplifað hér, og fáum ekki alveg hönd á fest, sé mikilvægt að samþykkja samninginn og frumvarpið og þar með staðfesta samninginn með viðaukanum — og eins og hv. þingmaður lýsti hefur hann augljóslega versnað. Ég trúi því ekki enn að nokkur maður haldi því fram, og ætlist til að tekið sé mark á því, að Bretar og Hollendingar, með því að fara höndum um lög okkar frá því í ágúst, hafi bætt stöðu Íslands. Það er fráleitt að halda því fram, það væri mikil yfirlýsing í garð þeirra sem fóru með samningana fyrir Íslands hönd að Bretar og Hollendingar hefðu bætt stöðuna með því að setja það þannig upp. Enda vona ég að það sé nú ekki.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að við séum komin á endastöð í þessu máli. Ég hlustaði á ræður og umræður hv. þingmanna áðan um að fara þá leið sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til, þ.e. að vísa málinu frá og reyna að fá sáttasemjara eins og Evrópusambandið inn í málið. Nú hefur hv. þingmaður setið í fjárlaganefnd, telur hann að málið sé fullreynt? Er ekki möguleiki að mati hv. þingmanns að taka málið upp að nýju með stjórnarþingmönnum? Eru stjórnarþingmennirnir hreinlega búnir að vísa þessu máli frá sér, búnir að gefast upp, telja að lengra verði ekki komist? Er málið þar með dautt fyrir þeim? Hugsa þeir á þann veg að því fyrr sem það (Forseti hringir.) hverfi sjónum þeirra því betra og menn verði þá bara að taka slaginn síðar meir, hvort við lifum þetta af efnahagslega og lagalega?