138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka fram að þetta var mjög athyglisverð umræða hjá hv. þingmanni og flokkssystur hennar áðan, Ragnheiði Elínu, um þennan rauða þráð sem virðist vera einhvers konar, ég veit ekki hvaða orð á að nota yfir það, sálfræðihernaður sem Samfylkingin notar á sitt fólk, að nota þennan rauða þráð til að koma upplýsingum á framfæri og greinilega mjög villandi upplýsingum líka, ekki eingöngu því sem er satt og rétt.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann, af því að ég veit að hún var í Noregi fyrir nokkrum dögum ásamt fleirum, ég hef heyrt það að í þeirri ferð hafi verið tekið á móti Íslendingum með kostum og kynjum og íslensku fulltrúarnir hafi ekki fundið annað en samhug og góðan hug hjá þeim Norðmönnum sem þeir hittu. Því miður hefur borið á því að það sama eigi ekki alveg við um norsk stjórnvöld, alla vega ekki ráðherra verkamannaflokksins sem stýra ríkisstjórninni. Við sáum um daginn frétt þar sem kunnugleg vinnubrögð voru höfð uppi í norska þinginu, þar sem Stoltenberg hótaði stjórnarslitum ef eitthvað yrði ekki samþykkt sem hann vildi ná fram og staðfastir þingmenn beygðu sig undir það, jafnvel hinn staðfasti vinur okkar Per Olaf Lundteigen, ef ég man rétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það vandamál sem við virðumst eiga í varðandi norrænu þjóðirnar sé fyrst og fremst vandi milli stjórnvalda þessara þjóða.