138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna gæti verið að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hitti einmitt naglann á höfuðið, vegna þess að við höfum í allt sumar og allt haust verið að fá misvísandi fregnir af því hver það er sem er að stöðva það að við fáum lánin, margumtöluðu, frá Norðurlöndunum. Það eru endalaust fréttir um að það sé Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hafi þá skoðun að við verðum að klára Icesave áður en þau koma hér inn og síðast komu fréttir frá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að það væri einmitt ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur Svíar, sem fara með málið fyrir hönd Norðurlandanna, sem hefðu sett þetta skilyrði og Svíarnir harðneita því. Það er því ekki að undra þó að maður verði hálfruglaður yfir þessu öllu saman og ég tel mjög brýnt að við reynum að komast að þessu. Ég tel að það sé gríðarlega brýnt fyrir okkur til að átta okkur á því hvernig staða okkar er í þessu samstarfi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég var í Noregi fyrir skemmstu til að kynna mér hvernig Norðmenn fóru í þá baráttu þegar fyrir dyrum stóð þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Norðmenn ættu að ganga inn í Evrópusambandið. Ég var þar í góðu yfirlæti hjá norsku Nei-hreyfingunni. Við fundum fyrir miklum hlýhug, við fundum ekki annað en að Norðmenn — við hittum bæði venjulega íbúa Noregs og eins pólitíkusa sem sitja á norska þinginu — við heyrðum ekki annað en þeir hefðu mikinn áhuga á því að kynna sér hvernig staðan væri hér á landi og mikinn áhuga á því að koma til aðstoðar. Þeir skildu mjög vel þau sjónarmið sem við höfum uppi í þessu máli, Icesave-málinu, enda kynntum við þau þegar færi gafst fyrir öllum þeim sem heyra gátu í rauninni.

Ég tel að það sé kannski rétt að þetta sé jafnvel bara einhver kergja á milli stjórnvalda þessara ríkja og kannski gæti það spilað eitthvað inn í að Svíar eru með ákveðið hlutverk í Evrópusambandinu í ár (Forseti hringir.) og þurfa væntanlega að hlusta þar á kröfur Breta og Hollendinga.