138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er mér smávandi á höndum því að hv. þingmaður svaraði eiginlega seinna andsvarinu sem ég ætlaði að fara í núna.

Ég ætlaði einmitt að velta því upp við hv. þingmann hvort það gæti verið að böndin berist að formennsku, ég held að það sé kallað formennska, Svía hjá Evrópusambandinu, a.m.k. eru þeir þar í forustu, hvort það sé hugsanlega svo að sænsk stjórnvöld — mér var bent á það í gær að tala ekki um allar þjóðirnar þegar ég ræði stjórnvöld og það er hárrétt — gangi fram fyrir skjöldu í því að spila út þessum hótunum út af lánveitingunum og hafi leitt þann slag hvað varðar lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlandalánin. En hv. þingmaður svaraði því í rauninni að það virtist frekar vera á þann hátt.

Ég velti því upp og vil þá í framhaldi spyrja þingmanninn að því hvort ekki sé full þörf á því að leiða hreinlega saman með einhverjum hætti Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, íslenska þingmenn ásamt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, íslenska þingmenn og fulltrúa Norðurlandanna, til að fá botn í það hver segir satt í þessu máli, því að það er búið að viðurkenna að Bretar og Hollendingar beittu þrýstingi og einhvers konar kúgunum, eða bresk og hollensk stjórnvöld, til þess að ná fram vilja sínum í Icesave-málinu. Því má velta fyrir sér hvort það sé ekki nauðsynlegt að þingmenn á Alþingi sameinist um það að kalla fulltrúa þessara aðila til sín til að fá botn í það mál, því að það er vitanlega alveg fáránlegt að hafa saklausa menn undir grun í þessu efni.