138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður hefur heyrt þetta sjónarmið stundum. Ég hef alfarið neitað að trúa þessu. Ef þetta væri reyndin, frú forseti, erum við farin að nálgast eitthvað sem heitir landráð og það getur bara ekki verið þannig að ég ætla algjörlega að neita þessu fyrir hönd þeirra sem tala um þetta, vegna þess að ef menn ætla sér að skuldsetja þjóðina svona mikið til þess að neyða hana seinna meir inn í Evrópusambandið þá er það náttúrlega bara sama og landsala. Ég fellst því ekki á þetta.

Það sem ég er að tala um er það að þessir hv. þingmenn vita að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðild Íslands að Evrópusambandinu og hugsanlega gera þeir það ekki nema þeir fái safaríkan og góðan samning við Ísland, safaríkan með háum vöxtum, „svavarsvöxtum“, sem ég kalla svo. Ég held að það sé heldur ástæðan fyrir hugmyndafræði þeirra og afstöðu, en eins og ég gat um verður maður að geta sér til um það. Ég á eftir að lesa fleira eftir Helga Hjörvar, það sem hann sagði á síðustu dögum fyrra samkomulagsins og fyrri laganna — sem eru í gildi núna — þar kemur margt athyglisvert fram.

Ég hugsa að afstaða margra samfylkingarmanna sé sú að þeir vilji ganga í Evrópusambandið og þeir viti að Bretar og Hollendingar muni ekki samþykkja, það er fyrst og fremst afstaðan. Vinstri grænum var hins vegar stillt upp við vegg. Þeim var sagt: Ef þið samþykkið ekki Icesave-samningana fellur ríkisstjórnin, fyrsta vinstri stjórnin sem hefur verið mynduð í lengri tíma á Íslandi, og til þess mega þeir ekki hugsa. Ég get í sjálfu sér skilið að það er náttúrlega heilmikið atriði en þeir þingmenn þurfa náttúrlega að gera sér grein fyrir alvöru málsins.