138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég var staddur hér klukkan 5.21 og heyrði ágæta ræðu þingmannsins og sérkennilegt svar hæstv. fjármálaráðherra. Ég man ekki eftir því að hafa séð þessi gögn. Ég get ekki fullyrt að þau séu ekki til en ég man ekki eftir því. Ég hef hins vegar lesið mikið af gögnum í þessu ólukkans máli, þar á meðal leynimöppuna svokölluðu sem er gríðarlega merkileg og í raun hlýtur það að vera krafa okkar í dag að skjölin í þeirri möppu verði birt. Það er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem hafa orðið varðandi hvernig Bretar og Hollendingar hafa beitt ýmsum tækjum til þess að reyna að knésetja okkur í þessu máli. Það er engin ástæða til þess að halda þessum gögnum leyndum því mörg þeirra renna styrkum stoðum undir þær fullyrðingar.

Ég held að það sé óásættanlegt að halda því fram sem hæstv. ráðherra gerir. Það getur vel verið að þessar upplýsingar séu til. Ég held hins vegar að í ljósi þess að það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu er í fyrsta lagi öðruvísi en fyrsta eintakið sem kom inn í sumar og líka allt öðruvísi en það sem samþykkt var hér með lögum í lok ágúst réttlæti það ekki að stjórnarskráin sé ekki skoðuð vegna þess að þetta er allt annað frumvarp sem liggur frammi nú. Því ítreka ég það sem ég hef sagt í síðustu ræðum mínum varðandi stjórnarskrána að það ber að taka tillit til þess vafa sem ríkir og skoða hann sérstaklega.