138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Eitt atriði vakti hjá mér ákveðna undrun þegar við vorum fyrr í dag að fjalla um yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna varðandi hvert við viljum fara með þetta mál. Nú er það undantekning þegar stjórnarliðar voga sér í pontuna en þegar við vorum að ræða þetta mál og þau atriði sem stjórnarandstaðan vildi skoða í fjárlaganefnd komu þau hróp úr hliðarsal frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, að þessi atriði hefðu öll verið skoðuð í sumar. Er það ekki einmitt kjarni málsins að við erum með allt annað mál í höndunum nú, eins og hv. þingmaður benti á varðandi stjórnarskrána? Er ekki málið að það þarf að fara í alla þessa vinnu undir öðrum formerkjum af því að forsendurnar eru allar breyttar? Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt atriði.

Mig langar að taka undir með hv. þingmanni sem spyr hvar ráðherrarnir séu. Hvers vegna eru þeir ekki hér að hlýða á mál okkar? Nú hafa þeir vissulega, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, verið duglegir að sitja undir umræðunum en það vekur athygli að þeir virðast ekki hafa þolgæði til þess að sitja undir þessari umræðu lengur. Getur það verið vegna þess að þeim líki ekki málflutningurinn? Eða þeir telji sig hafa öðrum hnöppum að hneppa? Eða er skýringin einfaldlega sú að þeir séu heima að vinna og undirbúa að koma til móts við kröfur stjórnarandstöðunnar? Það væri áhugavert ef hv. þingmaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sem er stjórnarandstöðuflokkur, kæmi og gæfi mér sína innsýn í þær vangaveltur.

Það hefur komið fram í umræðunum í dag að Samfylkingin er búin að gleyma því að fleiri flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn séu í stjórnarandstöðu. Þau hafa talað eins og við séum ein í stjórnarandstöðu og það er þá væntanlega í sama stað og þau gleyma því að þau voru með okkur í ríkisstjórn. Við vorum ekki ein í þeirri ríkisstjórn og ég vil halda því til haga að (Forseti hringir.) framsóknarmenn eru virkilega hér í stjórnarandstöðu ásamt Hreyfingunni.