138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góða yfirferð á þessu máli. Hann kom töluvert inn á svokallað Ragnars H. Halls-ákvæði. Eins og við vitum fjallar Ragnars H. Halls-ákvæðið einfaldlega um að farið sé að íslenskum lögum við gjaldþrotaskipti á íslensku fyrirtæki. Flóknari er sá fyrirvari ekki, hann er einfaldlega þannig. Farið er fram á að farið sé eftir íslenskum lögum.

Síðan var gerður viðaukasamningur við Breta og Hollendinga á sínum tíma, 5. júní, um að lagskipta kröfum, þ.e. að skipta á milli tryggingarsjóðanna. Eftir að þessi viðaukasamningur komst í hendur almennings og okkar hv. þingmanna var mörgum mjög brugðið að sjá að búið var að semja um að skipta kröfunum öðruvísi en átti að gera.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver sé í raun og veru ástæða þess, vegna þess að þessi krafa kemur að sjálfsögðu inn af hálfu Breta og Hollendinga. Það voru margir, sérstaklega Indriði H. Þorláksson, pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sem skrifaði nú greinar í blöð um að þetta væri bölvuð vitleysa í Ragnari H. Hall. Hverja telur hv. þingmaður skýringuna vera á því að Bretar og Hollendingar gerðu kröfu um að kröfunum væri skipt með þessum hætti? Það gat munað mörgum tugum milljarða, ef ekki hundruðum milljarða, fyrir Íslendinga og íslenska þjóð hvernig þetta var gert. Gæti hv. þingmaður velt því fyrir sér hvort Bretar og Hollendingar hafi kannski verið búnir að kynna sér íslensk gjaldþrotalög og hafi þess vegna viljað gera þessa skiptingu á kröfunum?