138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir skýrt og skorinort svar. Ég skil það þannig að þegar skrifað er, með leyfi forseta: „Rauð ljós blikkuðu á íslenska fjármálastarfsemi og að lokum var Ísland fryst“, vantar að skrifa: Rauð ljós blikkuðu á íslenska fjármálastarfsemi sem var undir stjórn viðskiptaráðherrans úr Samfylkingunni og Fjármálaeftirlitið var með samfylkingarráðherrann yfir sér. Það er ágætt að þingmaðurinn hafi gert svo skýrt og skorinort grein fyrir þessu, ég tek undir þá skýringu. Mér þótti vanta þarna ákveðna lýsingu inn í þetta þannig að ég er mjög glöð yfir því að hv. þingmaður hafi skýrt þetta svo afar vel í andsvari sínu.