138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að allir stjórnmálaflokkar sem hafa verið við stjórn undanfarið hafi axlað einhverja ábyrgð eða ætli sér að axla einhverja ábyrgð í þeirra stjórnartíð, nema einn. Það er mjög sérstakt að það skuli vera sá flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku og talar mikið um jafnrétti, réttlæti, réttsýni, víðsýni, samstarf, samráð. Öll þessi orð eru mjög flott og falleg á prenti. Það er ábyrgðarhluti af þessum stjórnmálaflokki að hafa uppi þessa grímulausu sögufölsun sem virðist vera í gangi í þessum Rauða þræði og það endar að sjálfsögðu með því, frú forseti, að þessi þráður slitnar og teygjan smellur í andlitið á þeim sjálfum.