138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í alþjóðapólitík áður fyrr var stundum talað um dómínóáhrifin, þ.e. þegar einn kubbur félli mundi það hafa þau áhrif að fleiri kubbar féllu. Nú held ég að við getum farið að búa til nýtt hugtak sem er Dominique-áhrifin, þ.e. áhrifin frá Dominique Strauss-Kahn, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur með því að svara svo afdráttarlaust bréfi frá mætum borgurum hér á landi gert það að verkum að nú eru allir í óðaönn við að bera það af sér að þeir hafi ætlað að beita Íslendinga hörðu. Það vekur að vísu sérstaka athygli að það skyldi þurfa atbeina borgara í landinu til að fá fram þessar upplýsingar og það er líka athyglisvert að það virðast vera greiðari póstsamgöngur milli Washington og Reykjavíkur en milli London og Reykjavíkur þegar kemur að bréfaskriftum. Eins og við vitum kusu bæði forsætisráðherra Hollands og Bretlands að sýna hæstv. forsætisráðherra Íslands þá dæmalausu óvirðingu og þar með landinu að svara ekki bréfum hæstv. forsætisráðherra og gera lítið úr Íslandi og íslenskum stjórnvöldum þar með. Þetta er auðvitað ótrúleg saga en sýnir að mínu mati fyrst og fremst eitt og það er að viðsemjendur okkar líta ríkisstjórn Íslands þessum augum. Þeir líta greinilega niður á íslensk stjórnvöld, telja sig ekki þurfa að ansa bréfum, þurfa ekki að ansa neinum hugmyndum okkar um það hvernig við viljum ljúka þessu máli, enda fór það svo eins og allir vita eftir síðustu sneypuför fulltrúa íslensku ríkisstjórnarinnar á fund Hollendinga og Breta að þeir komu til baka með öngulinn í bakhlutanum og samning sem var í algeru ósamræmi við þær ákvarðanir, skuldbindingar og skilyrði sem Alþingi hafði sett.