138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í þessari ræðu að ræða hluti sem hafa verið að birtast í dag og kannski nokkra hluti sem hafa verið að staðfestast á síðustu dögum. Við höfum verið í ræðupúlti, stjórnarandstæðingar, því að lítið höfum við séð til stjórnarþingmanna, og bent á að það sé mikil nauðsyn á því að þetta mál sé tekið út úr þinginu og farið að fjalla um það upp á nýtt á öðrum vettvangi, hugsanlega í nefndum þingsins eða hreinlega, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til frá upphafi, að menn legðu í nýja víkingaferð frá Íslandi til Breta og Hollendinga og reyndum að semja upp á nýtt, því að samningurinn upprunalegi sem allt þetta byggir á er með þeim hætti að það er erfitt að laga hann og virðist vera að andstaða viðsemjenda okkar við það eða geta okkar sem hingað til höfum staðið fyrir samningunum sé ekki nægileg. Alla vega finnst okkur þetta ekki ásættanleg niðurstaða. En ég efast ekki um að menn hafi reynt að gera eins og þeir héldu best miðað við þær aðstæður og forsendur sem þeir gáfu sér.

Það eru ekki einungis við stjórnarandstöðuþingmenn sem leggjum þetta til. Rétt er þó að minnast þess í upphafi ræðu minnar að í dag fóru formenn stjórnarandstöðuflokkanna hreinlega fram á það, og sendu út fréttatilkynningu og umræður hafa auðvitað snúist að nokkru leyti um það, að Icesave verði vísað frá þinginu og ríkisstjórnin taki upp viðræður aftur, taki m.a. upp viðræður við Evrópusambandið í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða þessa deilu þjóðanna til lykta og það verði hugsanlega gert á sanngjarnari hátt en ella.

Mig langar líka að nefna að fleiri aðilar hafa lagt þetta til hér í dag. Í ræðu sinni áðan kom hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson inn á grein í DV sem var rituð að ég held af Hreini Loftssyni þar sem hann lagði til að málið væri þannig vaxið að það væri rétt að taka það út úr þinginu, geyma það í tvo, þrjá mánuði, og var þar af leiðandi kannski orðinn svolítið samstiga sérfræðingnum Lee Buchheit sem ég hef áður nefnt að hafi lagt til að við tækjum málið til hliðar, biðum og áttuðum okkur á því hver staða okkar væri og semdum síðan upp á nýtt. En það eru fleiri sem hafa tekið undir þennan málflutning í dag. Ólafur Ísleifsson lektor var í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld og þar kom hann inn á nákvæmlega sömu hugmyndafræði, að taka þyrfti þetta mál til hliðar og fara betur yfir það þar sem margir þættir hefðu verið að breytast með þeim hætti að það yrði að skoða málið betur.

Það hefur líka verið vitnað í ræðustól til bloggfærslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings og mig langaði til að renna aðeins yfir hana, bara til að sýna þingheimi fram á að það eru ekki bara við stjórnarandstöðuþingmenn sem höfum lagt þetta til heldur hinir og þessir, bæði sérfræðingar í ýmsum málum og líka aðilar sem hafa tengst einhverju öðru en stjórnarandstöðunni hingað til. Í bloggfærslu sinni í dag reifar stjórnsýslufræðingurinn málið með ýmsum hætti og telur að allt of mikill tími hafi farið í Icesave-málið og að Icesave sjálft sé í raun og veru aðeins brot af þeim vanda sem þjóðin standi frammi fyrir. Það vitum við auðvitað og hefur verið rætt, og staðreyndin sé sú að jafnvel þó að ríkisstjórninni tækist að koma ríkisábyrgðinni í gegnum þingið, eins og náttúrlega hefur staðið til en ég vonast til að gangi ekki eftir, sé líklegt að við blasi málaferli og einnig kröfugerðir erlendra aðila sem ekki tengjast bara Icesave-málinu. Síðan segir stjórnsýslufræðingurinn svo ég vitni, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma litið er Icesave-málið eitt og sér sem lausn á vanda þjóðarinnar því ekki þess virði að taka upp meiri tíma í þinginu. Forsætisráðherra ætti því að taka málið úr höndum þingsins núna. […] Þessi ákvörðun forsætisráðherra mundi eflaust vekja athygli heimspressunnar (fínt). Embættismenn og stjórnmálamenn í London og Haag mundu fá í magann.“

Ég held að hægt sé að taka undir margt af þessu og þetta styður það sem við höfum verið að segja, að málið sé einfaldlega ófullgert og það þurfi að taka málið til hliðar og skoða það betur og senda þau skilaboð til viðsemjenda okkar að þjóðin sé tilbúin að taka málið upp til endurskoðunar og tilbúin til að standa saman um að bæta það og ná betri niðurstöðu í samningum sem mundu þá væntanlega fara fram í kjölfarið.

Síðan heldur stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir áfram, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra ætti að lýsa því yfir að íslenska ríkisstjórnin sé að vinna að lausn Icesave-deilunnar en það hafi nú komið í ljós að Icesave-vandinn sé of þröngt skilgreindur — vandi þjóðarinnar sé langtum stærri en Icesave-samkomulaginu sé ætlað að leysa og því sé lausnin sem nú er til umræðu of þröngsýn og takmörkuð.“

Hér sýnist mér að orð stjórnsýslufræðingsins og kröfur stjórnarandstöðuformannanna fari í raun og veru saman og eins það sem ég var að vitna til í grein í DV og í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld. Enn og aftur staðfestir þetta þær hugmyndir okkar framsóknarmanna þar sem við m.a. vitnuðum í þennan sérfræðing sem við því miður illu heilli bárum ekki gæfu til að ráða sem sérfræðing í samningaviðræðunum, áðurnefndan Lee Buchheit, sem lagði til í fyrrahaust og aftur í sumar þegar hann kom fyrir fjárlaganefndina, að málið yrði sett í salt. Samningurinn væri einfaldlega það slæmur að það væri alveg sama hvort við samþykktum hann eða samþykktum hann ekki, niðurstaðan yrði alltaf sú sama að við yrðum að fara til Breta og Hollendinga og semja upp á nýtt. Af þeim ástæðum lögðum við framsóknarmenn það til á sumarþinginu, við töldum að fyrirvararnir, þó að þeir væru vissulega mun betri en málið er núna, gengju ekki nægilega langt og að eðlilegast og best væri að fara strax, viðurkenna að samningurinn væri óaðgengilegur og óásættanlegur og við gætum ekki samþykkt hann, aftur til Breta og Hollendinga og semja. Við óttuðumst einmitt það sem hugsanlega hefur orðið niðurstaðan, að Bretar og Hollendingar litu á vinnu okkar í sumar sem einskonar mótleik, tilboð, og komu síðan með gagntilboð til baka sem auðvitað var sýnu verra en það sem við samþykktum og fór í gegnum þingið í ágústmánuði. Og auðvitað var það svo.

Í grein stjórnsýslufræðingsins, áðurnefndrar Sigurbjargar, heldur hún áfram að rekja það að setja ætti öll vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í eina körfu, fara yfir þetta í heild sinni og skoða málið upp á nýtt þar sem Icesave-hlutinn væri einn hluti af þessu, og það mundi þvinga Hollendinga og Breta til að koma að þessu borði þar sem það eru auðvitað mun fleiri aðilar en þeir sem gera kröfur í bankahrunið og gera kröfur á Ísland. Svo segir stjórnsýslufræðingurinn, með leyfi forseta:

„Ef ríkisstjórn Íslands leggur þetta til þurfa ríkisstjórnir Hollands og Bretlands að hafna þessari lausn á deilunni og þar með neita öðrum aðilum (t.d. þýskum og bandarískum kröfuhöfum) um úrlausn sinna mála á Íslandi. Það er komin fullkomin ástæða fyrir þjóðarleiðtoga Íslands, Hollands, Bretlands og þeirra landa sem hyggjast veita Íslandi lán til að hittast strax og tala saman um kjarna málsins.“

Hér get ég ekki orða bundist og tek undir þessi orð. Þetta er það sem við höfum verið að kalla fram bæði í umræðunni í þinginu og hreinlega með ákalli til ríkisstjórnarinnar og forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, að þeir taki sig saman, vil ég leyfa mér að segja, og hitti með formlegum hætti viðsemjendur okkar bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur líka komið til tals að þingnefndir færu út. Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að við gætum og mundum hafa mikið gagn af því og Ísland allt ef við stæðum saman (Forseti hringir.) um það að berjast fyrir hagsmunum okkar í stað þess að reyna að keyra málið í gegn eins og stjórnarmeirihlutinn gerir tilraunir til.