138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

eftirlit með skipum.

243. mál
[21:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á gildandi lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, og samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í samvinnu við Siglingastofnun Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að felldur verði brott 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna sem kveður á um að skipum undir 20 brúttótonnum beri við útgáfu haffærisskírteinis að leggja fram yfirlýsingu tryggingafélags um áhafnartryggingu.

Í ljósi þess sem fallið er frá stærðartakmörkunum skipa við lögskráningu sjómanna í því frumvarpi sem liggur hér fyrir á Alþingi og er lagt fram samfara þessu frumvarpi verður málsliðurinn óþarfur þar sem yfirlýsing tryggingafélags mun koma í gegnum lögskráningu hjá smábátum líkt og verið hefur verið með skip sem eru stærri en 20 brúttótonn.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.