138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

lögskráning sjómanna.

244. mál
[21:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi hæstv. samgönguráðherra vegna þess að ég tel að þar sé margt gott á ferðinni. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem kemur fram í frumvarpinu að núna skuli vera lögskráð á öll skip en eins og það er í dag er miðað við 20 brúttótonn. Ég tel þetta til mikilla framfara.

Einnig kemur fram í frumvarpinu að verið sé að tryggja að lögboðin áhafnartrygging sé ávallt í gildi og það er að sjálfsögðu einnig til hagsbóta.

Í þriðja lagi er framkvæmd lögskráningar gerð einfaldari en áður með rafrænni skráningu en eigi að síður er haldið inni þeim möguleika að hægt sé að lögskrá með svipuðu formi og nú er. Ég tel þetta því til hagsbóta.

Jafnframt er gerð breyting á frumvarpinu um að það sé ávallt tryggt að menn hafi hlotið öryggisfræðslu frá Slysavarnaskóla sjómanna sem er gríðarlega mikilvægt vegna þess að sú fræðsla hefur nú þegar bjargað mörgum mannslífum.

Að lokum ætlaði ég að segja, frú forseti, að það sem mér finnst hugsanlega vanta í frumvarpið er að við mundum setja skyldur um notkun björgunarbúninga á öllum skipum. Við mundum breyta því eins og verið er að gera hér í samræmi við skráninguna, þ.e. öll skip sem eru á veiðum við Íslandsstrendur sem eru nú með lögskráningarskyldu mundu líka þurfa að hafa björgunarbúninga um borð. Einnig mætti taka til athugunar að nú í dag eru ekki neinir samningar á bátum undir 15 tonnum. Ég vænti þess, frú forseti, að þar sem frumvarpið gengur til hv. samgöngunefndar muni það fá efnislega umfjöllun þar.

Ég vil þó að lokum segja að ég fagna frumvarpi hæstv. samgönguráðherra.