138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

275. mál
[22:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Málið á sér nokkurn aðdraganda og mun ég gera stuttlega grein fyrir honum áður en ég fer yfir efnisatriði frumvarpsins sjálfs.

Í ársbyrjun 2007 gekk í gildi sú breyting sem samþykkt var á Alþingi vorið 2006 að aðskilin voru annars vegar stjórnsýsla og eftirlit Flugmálastjórnar og hins vegar rekstur og þjónusta flugvalla og flugþjónustu og stofnað opinbera félagið Flugstoðir ohf. um síðastnefndu þættina. Þær breytingar urðu einnig á yfirstjórn flugmála að ríkisstjórnin ákvað árið 2006 að breyta yfirstjórn málaflokka og stjórnsýslu á Keflavíkurflugvelli til samræmis við það sem almennt tíðkaðist í landinu. Samgönguráðuneytið skyldi því taka við ábyrgð og rekstri flugvallarins enda talið eðlilegt að öll flugstarfsemi landsmanna heyrði undir eitt og sama ráðuneytið. Einnig ýtti brottför hersins undir þessa skipulagsbreytingu og um leið var ljóst að margs konar tækifæri gætu skapast til nýsköpunar í atvinnumálum.

Á vorþingi 2008 voru samþykkt lög um stofnun opinbera hlutafélagsins Keflavíkurflugvallar sem tók formlega til starfa í ársbyrjun 2009. Með því var sameinaður rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í opinbert hlutafélag í eigu ríkisins. Tilgangur hins nýja félags hefur verið að sinna allri starfsemi sem tengist flugrekstri, flugvallarekstri og allri þjónustu sem því tengist, rekstri flugstöðvar svo og annarri starfsemi sem tengist svonefndu haftasvæði flugverndar eða svæðinu innan flugvallargirðingar. Einnig var félaginu heimilað að semja við aðra aðila sem vilja ráðast í atvinnuuppbyggingu í nágrenni flugvallarins eða gerast eignaraðili í félögum sem mundu sinna slíkum verkefnum.

Þótt ekki sé löng reynsla komin á starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. tel ég að félagið hafi farið vel af stað. Það tók til starfa í þeirri dýpstu efnahagslægð sem gengið hefur yfir landið og afleiðingin varð m.a. sú að ferðamönnum hefur farið fækkandi og allur kostnaður aukist. Þessa raun hefur félagið staðist með mikilli prýði og ég vil nota þetta tækifæri og þakka bæði stjórnendum og starfsmönnum Keflavíkurflugvallar ohf. fyrir mikla og góða vinnu í þeim erfiðleikum sem yfir landið ganga núna. Ég vil einnig ítreka það, virðulegi forseti, að ég held að yfirfærsla Keflavíkurflugvallar til samgönguráðuneytisins hafi tekist afar vel og ég er afar þakklátur öllum þeim fjölda starfsmanna sem tóku þátt í því verkefni.

Segja má að fljótlega eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. hafi komið fram sú hugmynd hvort ekki væri rétt að félagið yrði sameinað Flugstoðum ohf. Efnahagsástandið hefur ýtt undir þessa hugmynd, svo og sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leita leiða til hagræðingar með því að endurskoða allt stofnanakerfið, m.a. með sameiningar í huga. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur farið fram mikil vinna við könnun á skipulagi samgöngustofnana. Í byrjun ársins skipaði ég tvo starfshópa, annan til meta mögulega sameiningu samgöngustofnana og hinn til að kanna hugsanlega sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Formaður þess starfshóps var Jón Karl Ólafsson og með honum störfuðu Margrét S. Björnsdóttir og Ólafur Nilsson. Starfshópnum til aðstoðar var Friðfinnur Skaftason úr samgönguráðuneytinu. Starfshópnum var falið að meta kosti og galla slíkra sameiningar og taka tillit til hagkvæmni, skilvirkni og fagþekkingar við þjónustu og stjórn flugvalla og rekstur flugleiðsöguþjónustunnar hér á landi. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum síðla sumars. Samandregnar eru þær helstar að starfshópurinn telur að sameinað félag með vel skilgreindum rekstrarþáttum og markmiðum sé betur í stakk búið til að hafa heildarsýn yfir málaflokkinn. Telur hópurinn að félagið verði jafnframt hæfara til að móta stefnu um samþættingu verkefna, ná auknu hagræði í rekstri og fjárfestingum, veita betri þjónustu og verði einnig færara um hvers kyns þróun og sókn í málaflokknum.

Það er einnig skoðun hópsins að þessar hugmyndir stuðli að auknu gegnsæi í rekstri málaflokksins og því leggur hann til sameiningu félaganna tveggja. Einnig telur starfshópurinn að sameinað félag verði betur í stakk búið til að leita nýrra verkefna sem eflt geti starfsemina.

Á grundvelli tillagna starfshópsins hefur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu verið samið það frumvarp sem hér er mælt fyrir, frumvarp til laga um að heimila samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ákveða samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í nýtt opinbert hlutafélag sem stofna skal.

Virðulegi forseti. Helstu atriði frumvarpsins eru þessi: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er heimilað að ákveða samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í nýtt opinbert hlutafélag. Yfirteknu félögunum telst slitið við tilkynningu til hlutafélagaskrár um gildistöku samrunans. Hlutafé skal vera í eigu ríkisins. Tilgangur félagsins skal vera í samræmi við tilgang hinna yfirteknu félaga og skal honum lýst nánar í samþykktum þess. Við samrunann taki hið nýja félag yfir allar eignir og skuldir svo og öll réttindi og allar skyldur yfirteknu félaganna. Þá er rétt að benda á að við samrunann munu ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti eða fyrirtæki, nr. 72/2002, með síðari breytingu, gilda um réttarstöðu þeirra.

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég átt fundi með yfirstjórn og starfsmönnum beggja þessara félaga og við undirbúning málsins hefur verið lögð áhersla á þátttöku þeirra og öfluga upplýsingamiðlun í öllu þessu ferli. Ég hef merkt áhuga og stuðning við þessar hugmyndir. Vandaður undirbúningur, framkvæmd og eftirfylgd er forsenda þess að sameining Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. beri árangur.

Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir m.a. að ekki sé gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs muni aukast verði frumvarpið að lögum óbreytt. Hins vegar megi gera ráð fyrir að til lengri tíma litið muni hagræðing nást fram með þessari sameiningu sem leiði til þess að kostnaður ríkissjóðs vegna hins nýja félags lækki. Gert er ráð fyrir því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið muni fara yfir fyrirkomulag fjármögnunar hins nýja félags. Í því sambandi er bent á að uppi séu hugmyndir um að breyta flugvallarskatti og varaflugvallargjaldi í þjónustugjöld en yrði sú raunin má gera ráð fyrir að bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs kynnu að lækka sem næmi tekjum af þeim gjöldum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir tilurð þessa frumvarps og forsögu málsins. Ég tel rétt að ráðast í sameiningu þessara opinberu hlutafélaga. Ég tel líka rétt að stefna að samrunanum sem allra fyrst til að hægt verði að ná fram þeirri hagræðingu sem samruninn er talinn leiða af sér strax á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og meðferðar hv. samgöngunefndar.