138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

275. mál
[22:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu horfir að mínu mati til bóta. Það má kannski segja sem svo að verið sé að ljúka nánast tveimur skrefum sem eðlilegast hefði verið að taka í einu til að sameina strax í upphafi starfsemi Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Eins og hæstv. ráðherra rakti var á sínum tíma tekin sú ákvörðun, sem var skynsamleg á þeim tíma, að skipta gömlu Flugmálastjórn upp í tvo þætti, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, Flugstoðir og síðan stjórnsýsluþáttinn, sem er flugmálastjórnin. Og þegar breytingar urðu á Keflavíkurflugvelli hefði verið eðlilegast að taka þá ákvörðun strax að sameina rekstur Flugstoða og Keflavíkurflugvallar líkt eins og hér er verið að leggja til. Það er hið rökrétta. Hvort tveggja felur í sér rekstur á flugvöllum og flugvallarkerfi landsins og blasir auðvitað við að skynsamlegast er að gera það á þann hátt að sá rekstur sem er á hendi ríkisins sé á einni hendi en ekki tveimur eins og hefur verið frá því að þetta fyrirkomulag var tekið upp. Þessi mál voru mjög mikið rædd á sínum tíma en því miður var ekki samstaða um að fara strax í það nauðsynlega skref heldur ákveðið að leika eins konar millileik eða biðleik sem var sá að hafa Flugstoðir áfram eins og þær höfðu verið og síðan að reka Keflavíkurflugvöll sem sjálfstætt fyrirtæki.

Það er örugglega rétt sem hæstv. samgönguráðherra segir að vel hefur verið staðið að rekstri flugvallarins og ég hef ekki nokkrar efasemdir um það. Og það er líka rétt að fyrirtækið hefur orðið að takast á við mjög erfið ytri skilyrði sem það hefur mætt af miklum þrótti og myndarskap eins og hæstv. ráðherra rakti. Hitt er sú staðreynd að þetta skuli ekki hafa verið gert í upphafi gerir það að verkum að það skref sem við erum núna að taka verður að einhverju leyti dýrara. Það þarf fyrirsjáanlega að gera breytingar á skipulagi þessara fyrirtækja. Við erum núna væntanlega með tvo yfirmenn í fyrirtækjunum, við erum með millistjórnendur í báðum fyrirtækjunum, við erum með margs konar stoðþjónustu o.s.frv. sem allt hlýtur að koma til álita að verði sameinað. Það mun óhjákvæmilega hafa áhrif á starfsmannahald þó að það þurfi ekki endilega að leiða til fækkunar starfsmanna fyrsta kastið. Hins vegar er gert ráð fyrir, m.a. í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, að þetta muni til lengri tíma litið leiða til hagræðingar og sparnaðar. Það mun þar með hafa áhrif á mannahald og er vonandi að ekki þurfi að koma til uppsagna á starfsfólki. En það leiðir hugann að því að skynsamlegt er þegar menn horfa á svona mál í upphafi að reyna að skoða endinn líka, sjá þá hvernig málin eiga að líta út þegar búið er að búa til hið nýja fyrirtæki. Og vissulega má segja sem svo að við höfum glatað ákveðnu tækifæri til hagræðingar strax í upphafi að geta ekki stigið þetta skref strax en það þýðir ekkert að sýta það. Þetta er orðinn hlutur og nú er verkefnið það að ganga þannig frá þessu máli að það verði sem best, að þetta nýja fyrirtæki verði sem öflugast til að takast á við þau verkefni sem því er ætlað.

Ég hef áhuga á að nefna tvennt í þessu sambandi sem að mínu mati skiptir gríðarlega miklu máli. Í fyrsta lagi eru Flugstoðir núna með rekstur innanlandsflugvallanna í landinu, Reykjavíkurflugvallar og allra annarra flugvalla í landinu. Það þarf auðvitað að ganga mjög vel úr skugga um og gæta þess, þegar þessi tvö fyrirtæki renna saman, að þætti innanlandsflugstarfseminnar verði gert jafnhátt undir höfði og hingað til hefur verið gert. Ég veit að við hæstv. samgönguráðherra erum mjög sammála um mikilvægi innanlandsflugsins og ég veit að hann mun leggja sig fram í þessum efnum. En það er ástæða til þess þegar skipulagsbreytingin verður að við undirstrikum mikilvægi innanlandsflugsins og allt verði gert til að engin röskun verði á því og að sá metnaður sem hefur verið til staðar varðandi innanlandsflugið haldi áfram þrátt fyrir að þessi starfsemi renni núna inn í stærri heild sem til verður með samruna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er sá þáttur sem snýr að alþjóðaflugþjónustunni. Við getum sagt sem svo að þetta hafi verið eins og hæna sem verpt hefur fyrir okkur gulleggi á hverju einasta ári. Það er enginn vafi á því að við höfum haft af þessu umtalsverðar gjaldeyristekjur, svo umtalsverðar að það hefur verið öfundarefni hjá ýmsum öðrum þjóðum. Við þekkjum það þó að menn hafi verið að reyna að þræta fyrir það, þá er það engu að síður svo að margir hafa ásælst í þá starfsemi. Þegar einhver óvissa hefur orðið í tengslum við til að mynda kjaradeilur þá hefur slík umræða ævinlega komið upp og ótti manna við að starfsemin kunni að fara úr landi. Það er einmitt á vettvangi Flugstoða sem þessi þekking, reynsla og sambönd á alþjóðlegu sviði eru til staðar og það er gríðarlega mikilvægt að þetta verði varðveitt áfram. Alþjóðaflugþjónustan hér á landi er rekin samkvæmt umboði frá Alþjóðaflugmálastofnuninni og er mjög mikilvægt að engin röskun verði á henni. Ég geng út frá því sem vísu að þrátt fyrir þessa formbreytingu sem hér er verið að leggja til, sameiningu þessara tveggja opinberu fyrirtækja, muni það ekki kalla á neina röskun eða viðbrögð Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eða þeirra annarra sem hafa um málið að segja.

Virðulegi forseti. Það hefði verið æskilegast að þetta skref hefði verið stigið í upphafi eins og ég sagði áðan en það þýðir ekkert að horfa til baka. Nú er aðalatriðið að horfa fram á veginn. Ég tel að það sé skynsamleg ráðstöfun, að sameina þessi tvö ríkisfyrirtæki sem eru í raun og veru að sinna samkynja þjónustu og er enginn vafi á því að þetta getur bæði eflt starfsemina og líka dregið úr kostnaði.

Mig langar að spyrja um eitt fyrir forvitnissakir. Nú vitum við að starfsemi Keflavíkurflugvallar fer eðli málsins samkvæmt fram á Keflavíkurflugvelli og yfirstjórnin er jafnframt þar. Flugstoðir eru hins vegar starfsemi sem teygir anga sína út um allt land og hefur höfuðstöðvar sínar í Reykjavík. Því vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið hugleitt með hvaða hætti staðið verði að þessum breytingum, hvar höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis verði, hvernig menn hafi hugsað sér skipulagið að öðru leyti. Nú bíður það væntanlega nýrrar stjórnar hins nýja fyrirtækis að ákveða það í smáatriðum, en ef hæstv. ráðherra hefur skoðanir á því væri æskilegt að þær kæmu fram, a.m.k. hugleiðingar hans um það hvernig þessum málum verður háttað og sérstaklega hvar hann sjái fyrir sér að höfuðstöðvar hins nýja sameinaða opinbera félags verði.