138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að margir hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar héldu því fram að ef við mundum samþykkja samningana núna gætum við sloppið frá þeim seinna og við mundum ekki þurfa að greiða þetta. Ég vil því fá að vitna í það sem haft var eftir Gordon Brown. Hann segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið um Icesave-málið, sem nú er verið að ræða á Alþingi“ — þ.e. seinna frumvarpið um það mál — „mun tryggja að lánasamningarnir verði lögfræðilega skotheldir“ — lögfræðilega skotheldir. „Það er mikilvægt skref fyrir alla aðila“, segir hann og kveðst fagna því að ríkisstjórn Jóhönnu vilji tryggja að skuldbinding íslensku innstæðutryggingarsjóðsins sé bindandi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé mikilvægt fyrir þá stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherra að lesa þó ekki væri nema þetta eina plagg um það til þess að hætta að lifa í þeirri sjálfsblekkingu að með því að samþykkja frumvarpið eins og það er geti þeir sett einhver lög og breytt því seinna.