138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er grundvallaratriði í máli af þessu tagi að menn tali saman. Það hefur ekki verið gert. Þingmenn, margir hverjir, hafa rekið sig á það í hvert sinn sem þeir fara til útlanda eða hitta erlenda menn hér, hvort heldur er stjórnmálamenn, blaðamenn eða aðra, að þeir þekkja ekki grunnatriði málsins. Það hefur einfaldlega ekki verið reynt að útskýra það fyrir þeim eins ótrúlegt og það nú er, hvað þá að forsætisráðherrar ríkjanna hafi talað saman, sem hefði átt að vera fyrsta skrefið í þessu máli, fundir forsætisráðherranna, leysa þetta á pólitískan hátt. Nei, það hefur ekki verið gert. Í stað þess berjast ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands fyrir málstað Breta og Hollendinga af hörku og reyna að afvegaleiða umræðuna, í stað þess að færa hana á réttar brautir í útlöndum.

Síðast í gærkvöldi var í viðtali í kvöldfréttum útvarps, að mig minnir, stjórnsýslufræðingur, sem benti á það, að í Hollandi vantaði ekkert nema það að Íslendingar útskýrðu málstað sinn. (Forseti hringir.) Þá hefðu menn þar skilning á stöðunni, en það hefði ekki verið gert.