138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu eigum við að biðja um mat frá manni eins og Lee Buchheit og í raun er alveg ótrúlegt að í svona miklu hagsmunamáli, 800 milljarðar a.m.k., skuli ekki hafa verið leitað eftir mati eins einasta erlends sérfræðings í svona samningum. Það er algjörlega óskiljanlegt. Ég held að ekkert íslenskt smáfyrirtæki hefði gert samning sem ensk lög ættu að gilda um án þess að fá a.m.k. einn mann með þekkingu á enskum lögum til að lesa hann yfir. Það hvernig á þessu hefur verið haldið er með hreinum ólíkindum.

Og af því Lee Buchheit er nefndur þá er það nú svo að menn bentu á þetta fyrir nokkrum mánuðum og hann kom hingað til landsins og strax við fyrstu yfirsýn, við fyrsta yfirlestur gat hann bent á nokkra grundvallargalla í málinu. Þá var lagt til að hann yrði fenginn til að fara yfir málið í heild en nei, það var sagt að ekki væri tími til þess. Síðan eru liðnir einhverjir mánuðir. Ég held því að við ættum ekki að missa það tækifæri aftur að láta fara yfir samningana.