138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum gera það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lagði til, svo sannarlega skulum við gera það, og í rauninni eins og hv. þingmaður nefndi hefur kæruleysi ríkisstjórnarinnar í þessu máli verið algjört.

Ég nefndi áðan að ekkert smáfyrirtæki hefði gert samning við erlendan aðila án þess að láta lesa hann yfir. Hér er ríkisstjórn Íslands búin, fyrir hönd landsins alls, að leggja alla framtíðina undir efnahagslega og líka framtíð samfélagsins, samfélagsgerðarinnar jafnvel, án þess að leita sér tilhlýðilegrar aðstoðar. Það er í rauninni algjörlega óskiljanlegt að staðan skuli vera þessi. En núna þegar við höfum náð fram þessu svigrúmi til að skoða hlutina verðum við vissulega að nýta það vel og ég fagna tillögu hv. þingmanns um að hafa samband við Lee Buchheit sem hefur þegar komið aðeins að málum og kemur því ekki alveg nýr að og verður vonandi í aðstöðu til að fara yfir það í heild (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður leggur til.