138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég er ein af þessum reynslulausu þingmönnum og er í forustu Framsóknarflokksins. Ég verð að segja að eftir að hafa lesið í morgun það sem haft hefur verið eftir hæstv. fjármálaráðherra og eftir að hafa horft upp á þau vinnubrögð hjá hæstv. fjármálaráðherra er ég mjög stolt af því að vera reynslulítill þingmaður. Eftir hrunið var kallað eftir því að hlutunum yrði breytt. Ég mundi gjarnan vilja heyra álit hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur á því hvort það sem ég nefni hérna hafi verið það sem var verið að kalla eftir þegar fólk stóð á Austurvelli og þegar við horfðum fram á það sem var að gerast hérna.

Í fyrradag var hæstv. fjármálaráðherra spurður út í það hvort það gæti staðist að skuldir Íslands væru meiri en áður hafði verið áætlað, og það var bara fyrir nokkrum vikum. Í svarinu segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Mér er ekki kunnugt um að til séu neinar nýrri tölur en þær sem hafa verið unnar og birtast í starfsmannaskýrslunni í tengslum við fyrstu endurskoðun samstarfsáætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum …“

Síðan staðfestu hins vegar, nánast þann sama dag, fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þetta væri rétt. Telur hv. þingmaður að þarna hafi hæstv. fjármálaráðherra annaðhvort logið að þinginu eða verið svona illa upplýstur? Ef svo er, ætli það séu þau nýju vinnubrögð sem var kallað eftir? Ætli það sé nokkur möguleiki á því að treysta þessu reynslumikla fólki þegar það stendur í ræðustól, annaðhvort illa undirbúið, illa upplýst, greinilega ekki starfi sínu vaxið eða hreinlega lýgur (Forseti hringir.) að Alþingi Íslendinga?

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmann og aðra þingmenn að gæta orða sinna.)