138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég svara hv. þm. Eygló Harðardóttur þannig að ég held að ekki hafi verið kallað eftir þeim vinnubrögðum sem hér birtast í þessu máli. Það er hreint með ólíkindum. Þingmaðurinn fór yfir þær upplýsingar um skuldaþolið sem fram koma hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Verum minnug þess hverjir ganga eftir upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þessa dagana. Það eru borgarar þessa lands. Það er leikstjóri úti í bæ sem fer á fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með hóp með sér og upplýsir um það sem er að gerast. Og hvað segir hæstv. fjármálaráðherra þá? Hann segir: Þetta eru óábyrgar upplýsingar. Ég þarf að fletta því upp hvað hann sagði nákvæmlega, ég man það ekki, en það var ekki mikil virðing í þeim ummælum hjá hæstv. fjármálaráðherra. Og það er það sem hefur verið gegnumgangandi í öllu þessu ferli, ef einhver vogar sér að gagnrýna þennan ömurleg samning og þetta ömurlega vinnulag er gert lítið úr því fólki. Hæstv. forsætisráðherra segir: Ég er þessu ekki sammála. Hún hefur staðið í þessum stól og sagst ekki vera sammála framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar hann upplýsir um tengsl eða ekki tengsl Icesave við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hæstv. forsætisráðherra segist ekki vera sammála því.

Hv. þingmaður spyr hvort hæstv. fjármálaráðherra. hafi logið eða verið illa upplýstur. Ég held að hann sé bara orðinn svo þreyttur og pirraður, kannski vegna þess að hann er búinn að vera svo lengi í pólitík og er ekki lengur ungur og sprækur. Það gæti verið það og ég tek undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur, frekar vil ég vera ung og reynslulaus en gömul og þreytt í pólitík. (ÖJ: Og laus við pirringinn eins og hv. þingmaður.) [Kliður í þingsal.]