138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi orð sem hv. þingmaður viðhafði hér eru sannarlega þau orð sem ég vildi ekki viðhafa. Þetta voru einmitt þau orð sem ég hafði í huga. Af því að þingmaðurinn bað um að Rauði þráðurinn yrði rifjaður upp geri ég það hér. Í gær var sendur út á póstlista Samfylkingarinnar pistill undir nafninu „Icesave eða ísöld“ þar sem ráðþrota og röklaus Samfylking reynir að þjappa liðinu sínu í takt og þá gerir hún það með því að grípa til ósanninda og sögufölsunar, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn framkölluðu hrun íslensks efnahagskerfis, rauð ljós blikkuðu á íslenska fjármálastarfsemi og að lokum var Ísland fryst. Búið er að eyða ómældum kröftum í að breyta þessu og er Icesave lykillinn að viðreisn.“

Ég spyr, eins og ég spurði hér í gær: Hvar var Samfylkingin á þessum tíma? Hver fór með bankamálin? Hver hafði yfirumsjón með Fjármálaeftirlitinu? Og hver var utanríkisráðherra á þessum tíma? (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hlaupið frá sinni ábyrgð, en Samfylkingin, (Forseti hringir.) eins röklaus og hún er, gerir það. [Kliður þingsal.]