138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velti hér ágætlega fyrir sér og útlistaði undarlega afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til málsins en einnig þann undarlega málflutning sem hann hefur viðhaft og verður sífellt óbilgjarnari, skulum við segja. Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvað veldur. Ég tel reyndar að það sé rétt mat hjá hv. þingmanni að þetta hafi ýmislegt með það að gera að ráðherrann sé ósáttur við að hafa þurft að gera einhverja málamiðlun, ósáttur við að þetta mál sem hér er til umræðu verði skoðað nánar því að eins og við vitum nú þegar þolir það enga skoðun.

Maður getur samt ekki annað en velt því fyrir sér hvers vegna þessi hæstv. ráðherra og núverandi ríkisstjórn heldur áfram að tala af þessari hörku fyrir máli sem öllum má vera ljóst að er ekki aðeins illa unnið heldur stórhættulegt fyrir efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Ég velti fyrir mér hvort það geti verið svo einföld skýring á því að þessir stjórnarliðar, sem við höfum nú séð aftur og aftur viðhafa heldur gömul vinnubrögð í pólitík sinni, hafi verið búnir að leggja sjálfa sig undir, sig og hugsanlega vini sína að einhverju leyti, með því að halda því fram að þetta væri hin rétta lausn. Þegar svo kemur betur og betur í ljós að svo er ekki bregðast þeir ekki við með því að reyna að laga niðurstöðuna eða koma til móts við þá sem benda á gallana heldur með því að grafa sig dýpra og dýpra í skotgröfina. Þetta sé sem sagt ekki flóknara en svo að viðkomandi ráðherrar hafi verið byrjaðir að tala fyrir þessari niðurstöðu og ekki getað bakkað af þvermóðskunni einni saman.

Er þá raunin sú að Ísland verði skuldsett, líklega um fram það sem landið ræður við, alla vega svo mikið að það verður ekki samt eftir, út á þvermóðsku ráðherranna og gamaldagshugsunarhátt?