138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef velt því mikið fyrir mér hvað vaki fyrir hæstv. ráðherrum, ég trúi ekki öðru en t.d. hæstv. fjármálaráðherra sem hefur setið hér — hann hefur verið mjög ötull við að sitja hér, hann hefur hlustað á röksemdir, hann hefur hlustað á gagnrýni, hann hefur hlustað á þetta og séð þetta frá því í júní. Ég skil ekki af hverju þetta fer ekki í gegn. Ég veit það bara að ef það er eitthvað sem stjórnmálamenn alls staðar í heiminum skilja, sama hvaðan þeir eru, er það sá vandi sem því fylgir að koma málum gegnum þingið og virðingin við þingið. Ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra hefði á einhverjum tímapunkti einfaldlega átt að fara til Breta og Hollendinga og segja: „Vitið þið hvað, eins og þið manna best skiljið getur maður ekki boðið þjóðþingi upp á hvað sem er. Ég mun ekki koma þessu máli óbreyttu í gegnum þingið, það er bara þannig. Ég þarf að standa með mínu fólki, ég þarf að standa með mínu þingi og ég vil fá skilning á því sjónarmiði.“ — Þetta hafði hann tækifæri til að gera eftir að fyrirvararnir voru samþykktir.

Hv. þingmaður spyr: „Var hæstv. fjármálaráðherra búinn að leggja sjálfan sig undir?“ Það er náttúrlega sögusögnin sem maður heyrir. Maður heyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi einmitt sagt það við flokksmenn sína: „Ef þetta verður ekki samþykkt í þessari tilraun er ég hættur.“ Ef það er röksemd fyrir því að samþykkja þetta mál óbreytt finnst mér hún ekki duga. Ég get ekki tekið það að viðhalda fyrstu hreinu vinstri stjórninni sem nægilegri ástæðu fyrir að stofna íslensku þjóðinni í slíka áhættu eins og að samþykkja þessa samninga. (Forseti hringir.)

Ég segi: Mér er alveg sama þótt þessi vinstri stjórn (Forseti hringir.) haldi áfram, mér er bara ekki sama um það að þessir (Forseti hringir.) samningar fari í gegn óbreyttir.